
Samkvæmt frétt BBC mótast þessi afstaða utanríkisráðuneytisins af ótta við að með því að veita fulltrúa fjölþjóðlegra samtaka sömu réttindi og fulltrúa fullvalda þjóðríkja sé verið að skapa hættulegt fordæmi.
„Alvarlegar áhyggjur“ af afstöðu Breta
Afstaða Breta er á skjön við það sem gengur og gerist í öðrum ríkjum. Evrópusambandið er með sendiráð og/eða ræðismannsskrifstofur í 142 löndum, víðs vegar um heiminn, og alstaðar njóta erindrekar þess sömu réttinda og stjórnarerindrekar fullvalda ríkja.
Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sendi Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, erindi þar sem hann lýsir „alvarlegum áhyggjum“ af málinu. Það verður að öllum líkindum tekið fyrir á fundi utanríkisráðherra sambandsins á mánudag, þeim fyrsta síðan Bretar gengu endanlega úr ESB.
ESB annað og meira en venjuleg alþjóðasamtök
Sendifulltrúar alþjóðasamtaka njóta almennt mun minni réttinda en diplómatar fullvalda ríkja, reglur um þá eru breytilegar milli landa og ekki hoggnar í stein, öfugt við ákvæði Vínarsáttmálans.
Evrópusambandið vill meina að það sé annað og meira en hin dæmigerðu alþjóðasamtök. þar sem það hafi eigin gjaldmiðil, réttarkerfi og löggjafarvald. Í erindinu til Raabs segir Borrell að afstaða Breta taki ekkert tillit til sérstöðu Evrópusambandsins, boði ekkert gott fyrir framtíðarsamskipti Breta og sambandsins og sé ekki góður grunnur að samkomulagi.
Bretar sáttir við fyrirkomulagið er þeir voru enn hluti af ESB
Í frétt BBC segir að ónefndir evrópskir embættismenn tali um það sín á milli að afstaða Breta nú einkennist af hræsni. Benda þeir á að þegar utanríkisþjónustu ESB var komið á laggirnar árið 2010 í framhaldi af Lissabonsáttmálanum, hafi Bretar óhikað kvittað undir það að erindrekar sambandsins skyldu njóta allra þeirra réttinda, sem Vínarsáttmálinn kveður á um að sendifulltrúar fullvalda ríkja skuli hafa. Ekkert hafi breyst eftir útgöngu Breta úr sambandinu, sem réttlæti þennan viðsnúning í afstöðu þeirra.