Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Bóluefnið nær fullri virkni viku eftir síðari sprautuna

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson, Vi - RÚV
Um 5.000 manns, íbúar hjúkrunarheimila og heilbrigðisstarfsfólk í framlínu sem fengu fyrri bólusetninguna af bóluefni Pfizer/BioNTech í lok síðasta árs fá nú síðari skammtinn. Sigríður Dóra Magnúsdóttir, umdæmislæknir sóttvarna á höfuðborgarsvæðinu segir meiri líkur á að fá aukaverkanir við síðari bólusetningu en þá fyrri. Það tekur bólusetninguna um eina viku að ná fullri virkni eftir síðari bólusetninguna.

Þegar hafa um 1.300 manns fengið síðari bólusetninguna, en 4.875  fengu þá fyrri í lok desember. Samkvæmt upplýsingum frá Embætti landlæknis er þessari síðari bólusetningu lokið víða á landinu, meðal annars á Suður- og Norðurlandi. Búist er við að verkefnið verði klárað núna í vikunni. 

Sigríður Dóra Magnúsdóttir umdæmislæknir sóttvarna og framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir að byrjað hafi verið að gefa síðari bólusetninguna á höfuðborgarsvæðinu á um 20 hjúkrunarheimilum og 50 sambýlum snemma í morgun.

Bóluefnið er blandað í húsnæði Heilsugæslunnar á Suðurlandsbraut og það síðan flutt í lögreglufylgd á bólusetningarstaði. Auk um 1.800 íbúa hjúkrunar- og dvalarheimila fá um 300 framlínustarfsmenn heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu og starfsfólk í sýnatöku síðari bólusetninguna í dag. Að sögn Sigríðar hefur það gengið vel.

„Það eru mjög mikið hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu, nokkur sambýli og dagdvalir. Við klárum þann hóp í dag sem er mjög mikið fagnaðarefni. Þetta er gríðarleg vinna að skipuleggja en þetta hefur gengið mjög vel og mjög stór hópur heilbrigðisstarfsmanna að sinna þessu,“ segir Sigríður.

Hún segir að meiri líkur séu á að finna fyrir óþægindum við síðari bólusetninguna en þá fyrri. „Við heyrum af því að fólk sé að fá meira staðbundin eymsli. Bara allskonar einkenni. Það er verið að lýsa óþægindum á stungustað en auðvitað getur komið svona almenn vanlíðan.“

Það tekur um viku fyrir bóluefnið að ná fullri virkni. „Auðvitað kemur einhver vörn smám saman en þetta er viðmiðið. Það verða ekki gefin út bólusetningarvottorð fyrr en viku eftir seinni bólusetningu,“ segir Sigríður.