Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Álfheiður vill leiða Pírata í Suðurkjördæmi

21.01.2021 - 14:28
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Álfheiður Eymarsdóttir, varaþingmaður Pírata, sækist eftir að leiða lista flokksins í Suðurkjördæmi í Alþingiskosningunum í haust. Smári McCarthy, þingmaður Pírata í Suðurkjördæmi, ætlar ekki að gefa kost á sér aftur.

Píratar raða á framboðslista í opnu prófkjöri í öllum kjördæmum og eiga framboðslistarnir að liggja fyrir í byrjun mars. Áhugasamir geta tekið þátt í prófkjörinu með því að skrá sig á vef Pírata.

Álfheiður segir tilkynningu til fjölmiðla að hún sé fædd á Höfn í Hornafirði, búi á Selfossi og hafi tekið þátt sveitarstjórnarmálum þar sem varabæjarfulltrúi. Hún er stjórnmálafræðingur að mennt, situr stjórn RARIK, hefur starfað hjá Reykjavíkurborg sem embættismaður og rekið fiskverkunar- og útflutningsfyrirtæki.

Álfheiður hefur verið varaþingmaður síðan 2017. Hún segir í tilkynningu á Pírataspjallinu að hún vilji gera sér áfram far um að rækta samskipti og deila upplýsingum til grasrótar Pírata.

„Ég gekk í Pírata árið 2013 og er afar þakklát fyrir það traust og þau verkefni sem Píratar hafa falið mér síðan þá,“ skrifar Álfheiður.

Þeir Smári McCarthy, Helgi Hrafn Gunnarsson og Jón Þór Ólafsson, sem allir leiddu lista Pírata fyrir síðustu Alþingiskosningar ætla ekki að gefa kost á sér í haust. Í stað Jóns Þórs gefur Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kost á sér til að leiða lista flokksins í Suðvesturkjördæmi. Björn Leví Gunnarsson og Halldóra Mogensen ætla bæði að gefa kost á sér í Reykjavíkurkjördæmum.