Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Trump veitti Steve Bannon og 72 öðrum sakaruppgjöf

epa08950723 (FILE) - White House Chief Strategist Steve Bannon speaks at the 44th Annual Conservative Political Action Conference (CPAC) at the Gaylord National Resort & Convention Center in National Harbor, Maryland, USA, 23 February 2017 (reissued 20 January 2021). Bannon, who was charged in 2020 with fraud over a US-Mexico border wall fundraising campaign, was pardoned by US President Donald Trump just hours before the inauguration of President-elect Joe Biden. A total of 73 people were pardoned, while 70 others had their sentences commuted.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseti, hefur veitt Steve Bannon, fyrrverandi ráðgjafa sínum, sakaruppgjöf, nokkrum klukkustundum áður en hann lætur af embætti. Bannon er einn 73 sakamanna sem bætast við þann hóp sem Trump hefur náðað undanfarið.

Auk þess að náða menn mildaði Trump dóma yfir sjötíu til viðbótar að því er fram kemur í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu. Bannon var handtekinn í ágúst síðastliðnum og ákærður fyrir fjársvik sem tengist fjársöfnun fyrir múrnum við landamæri Mexíkó.

Bandarískir miðlar greina frá því að Trump hafi tekið ákvörðun um náðun Bannons skömmu eftir að þeir töluðu saman í síma í gærkvöld. Meðal annarra náðaðra voru Elliott Broidy, fyrrverandi fjáraflamaður forsetans og rapparinn Lil Wayne sem átti yfir höfði sér tíu ára fangavist eftir að hafa játað ólöglega vopnavörslu.

CNN greindi frá því að lögfræðingar Trumps, með Pat Cipollone í broddi fylkingar, réðu honum harðlega frá því að gera tilraun til að náða sjálfan sig, á fundi í Hvíta húsinu á laugardag.

Það ætti einnig við um fjölskyldu hans og þá þingmenn Repúblikanaflokksins sem sóst hafa eftir náðun vegna aðkomu þeirra að árásinni á þinghúsið 6. janúar. Það sögðu lögfræðingarnir að gæti reitt þá Repúblikana í öldungadeild þingsins til reiði sem taka þurfa afstöðu í komandi réttarhöldum gegn Trump.

Auk forsetans sátu Ivanka dóttir hans og Jared Kushner tengdasonur hans fundinn en rök lögfræðinga Trumps gegn fyrirfram náðun sjálfs sín og fjölskyldu hans eru að með því hefði hann lýst sekt og berskjaldað sig fyrir mögulegum refsiaðgerðum.

Lögfræðingarnir bentu Trump á að til að veita sjálfum sér og fjölskyldu sinni náðun hefði hann þurft að tiltaka ákveðin afbrot sem hann hefur enn ekki verið ákærður fyrir.

Joe Biden og Kamala Harris verða sett í embætti í dag en Trump verður ekki viðstaddur. Hann verður heima hjá sér á Flórída.