Orð ársins 2020 á RÚV er þríeykið og hjá Stofnun Árna Magnússonar er það orðið sóttkví. Bæði orðin eru mjög einkennandi fyrir það sem hæst bar á nýliðnu ári.
Orðið sóttkví merkir einangrun til að afstýra útbreiðslu sjúkdóms. Hægt er að setja fólk, dýr eða staði í sóttkví. Þúsundir fóru í sóttkví á síðastliðnu ári til að stemma stigu við útbreiðslu heimsfaraldurs, margir oftar en einu sinni. Orðið sóttkví snerti því stóran hluta landsmanna persónulega og var mjög áberandi í allri umræðu.
Stofnun Árna Magnússonar sótti orð ársins í textasöfn sem endurspegluðu umræðuna í fjölmiðlum og samfélaginu öllu.
Þríeykið hlaut afgerandi kosningu á RÚV.is
Þríeykið er skipað Ölmu D. Möller landlækni, Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni og Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni. Þau þrjú hafa verið í fararbroddi frá því að faraldurinn hófst á Íslandi og veitt upplýsingar, gefið ráð, leiðbeiningar og fyrirskipanir á tíðum og reglubundnum upplýsingafundum Almannavarna. Þjóðin lagði traust sitt á þau og það hefur haldist enda voru þau valin manneskjur ársins á Rás 2. Ekki var langt liðið á faraldurinn þegar farið var að kalla Ölmu, Víði og Þórólf einu nafni þríeykið, jafnt í umræðunum í heita pottinum þegar hann var opinn, sem í umfjöllun fjölmiðla, og allir vissu við hver var átt.
Þríeykið vann kosninguna á RÚV.is með nokkrum yfirburðum, hlaut 1.176 af 3.416 atkvæðum eða rúman þriðjung.
Kófið var vinsælt
Í öðru sæti í valinu á orði ársins 2020 var kófið. Þetta gamla orð fékk nýja merkingu á síðasta ári. Það er hljóðlíking við sjúkdómsheitið COVID-19 og merking þess smellpassar við ástandið. Kóf merkir mökkur og getur til dæmis verið þykkur reykur eða gufa og blindhríð. Áður en bóluefnið komst í augsýn má segja að kófið hafi verið býsna þétt. Kófið fékk 963 atkvæði.
Samkomubann hreppti þriðja sætið á listanum yfir orð ársins 2002. Það hlaut 323 atkvæði sem er rétt innan við 10% atkvæða. Orðin sem eftir eru raðast þannig, bangsaleit, grímuskylda, smitrakningarapp, tveggja metra reglan og bóluefni deila sæti, sýnatökupinni og ferðagjöf sem rekur lestina.
Tillögur um orð á listann
Ljóst er að aldrei verður fullkomin sátt um orðin sem kosið er um. Því var hægt að leggja til önnur orð sem fólki fannst eiga heima á listanum.
Meðal þeirra orða sem stungið var upp á voru smitskömm, sóttkví, heimkomusmitgát, kóviti og farsóttarþreyta.