Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Þeir gáfu hjarta sitt og sál í leikinn“

Mynd: EPA / EPA

„Þeir gáfu hjarta sitt og sál í leikinn“

20.01.2021 - 16:37
„Þetta svíður svakalega. Ég vil þó hrósa leikmönnunum fyrir hetjulega baráttu þeir gáfu hjarta sitt og sál í leikinn og við fengum einungis á okkur 20 mörk en því miður þá skorum við bara 18 og þar liggur þetta,“ segir Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, um tapið gegn Sviss.

„Sóknarlega var þetta mjög erfitt og við það bætist að við erum samt með ágætis stöðu og erum komnir yfir og  en það er ólán yfir okkur, við misnotum tvö víti, það fara alltof mörg dauðafæri þegar upp er staðið. Hvert færi er svo dýrmætt í svona jöfnum leik þegar lítið er skorað. Það féll ekki með okkur nægilega vel og við áttum í erfiðleikum með að opna þessa vörn það verður að segjast eins og er,“ segir Guðmundur.

Alexander Petersson var rekinn af velli með rautt spjald í upphafi seinni hálfleiks. „Það var mjög dýrt vegna þess að það dró aðeins úr okkur vígtennurnar þó að varnarleikurinn hafi verið stórkostlegur, það er ekki hægt að kvarta yfir honum,“ segir Guðmundur.

Íslenska liðið gerði mörg mistök sóknarlega en varnarleikurinn var sterkur að mati Guðmundar. „Þetta er fyrst og síðast bara sóknarleikurinn og skotnýting og við hirðum ekki fráköst. Þetta eru nokkur smáatriði sem enda í því að við töpum með tveimur mörkum.“ Þá segir hann hraðaupphlaupin ekki hafa verið góð. „Það var eitthvað óöryggi yfir mannskapnum og náðum ekki að fylgja því eftir sem var planið okkar, það gekk ekki.“

Ísland mætir Frakklandi næst í milliriðlinum og þar á eftir Noregi. „Það er allt mögulegt það eru tveir leikir eftir og við erum komnir hingað til þess að standa okkur og við bara höldum áfram dampi,“ sagði Guðmundur að lokum.