Stormasöm valdatíð Donalds Trump á enda

Joe Biden verður settur í embætti forseta í dag.
epa07301446 US President Donald J. Trump departs after proposing temporary protections for some undocumented immigrants in return for border wall funding to end the partial government shutdown in the Diplomatic Room of the White House in Washington, DC, USA, 19 January 2019. The partial shutdown over funding for the President's proposed wall has dragged into its fifth week, with little apparent hope for a quick resolution.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA
Fjögurra ára valdatíð Donalds Trump lýkur í dag. Hún hefur verið stormasöm, litrík og óvenjuleg fyrir margra hluta sakir. Við lítum til baka og rifjum upp það sem gengið hefur á síðustu ár.

Hvaða kosningaloforð stóð Donald Trump við? Hver voru umdeildustu atvikin? Hverjir eru hans stærstu sigrar eða mestu klúður? Oft á tíðum skarast þessi mál og það sem sumir telja sigra líta aðrir á sem mistök. Hér verður farið yfir nokkur af þeim málum sem stóðu hæst en listinn er langt frá því að vera tæmandi. 

Múslimabann, múrinn og Bandaríkin fyrst

Trump var harðlega gagnrýndur fyrir að lofa „algjöru“ ferðabanni múslima, sem oft er einfaldlega kallað múslimabannið. Þetta stóð hann við að einhverju leyti þegar hann undirritaði tilskipun stuttu eftir að hann varð forseti sem meinaði fólki frá sjö múslimaríkjum að koma til landsins. Tilskipunin mætti strax mikilli andstöðu og tók ýmsum breytingum, en hún stendur enn að hluta. Samkvæmt minnisblaði frá starfsmannastjóra Bidens þá hyggst hann snúa þessu við strax á fyrsta degi í embætti. 

Rauði þráðurinn í flestum kosningaloforðum Trumps var að gera Bandaríkin frábær á ný og að alltaf skyldu Bandaríkin vera sett í fyrsta sæti, America first. Að hans mati virðast úrsagnir frá alþjóðasamningum og alþjóðasamstarfi leiðir til þess. Hann lofaði að segja Bandaríkin frá kjarnorkusamningi stórveldanna við Íran og Parísarsáttmálanum. Mörg héldu að þetta myndi ekki ná fram að ganga, ráðgjafar forsetans myndu eflaust tala hann til. Svo fór að Trump dró Bandaríkin út úr báðum samningum. Joe Biden hefur lofað að Bandaríkin sláist aftur í hópinn með nærri öllum öðrum ríkjum heims hvað varðar Parísarsáttmálann. Bandaríkin hættu einnig í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna fyrir tilstilli Trumps og menningar- og vísindastofnun SÞ (UNESCO). Einnig er vert að nefna samninga við Rússa um opna lofthelgi og meðaldrægar kjarnorkuflaugar sem forsetinn ákvað að draga Bandaríkin út úr. 
 

Mynd með færslu
 Mynd: Jesco Densel - AFP / Getty
Trump lenti stundum upp á kant við kollega sína.

Það stóð yfirleitt mikill styr um Trump í aðdraganda leiðtogafunda, hvort sem þeir voru á vegum NATO eða annarra samtaka. Hvað ætli Trump geri? Hvað segir hann? Grannt var fylgst með framgöngu forsetans sem yfirleitt lét í sér heyra áður en slíkir fundir fóru fram. Trump var sigurreifur eftir leiðtogafund NATO í júlí 2018 og sagðist hafa komið því til leiðar að önnur ríki ætluðu að stórauka framlög sín. Aðrir leiðtogar sem tjáðu sig eftir fundinn sögðu að tekin hefði verið ákvörðun um að standa við markmiðið sem var samþykkt fjórum árum fyrr.

Trump lofaði að færa bandaríska sendiráðið í Ísrael til Jerúsalem og stóð við það. Þá voru Gólanhæðir viðurkenndar sem hluti af Ísrael og Bandaríkin breyttu um stefnu gagnvart ólöglegum landtökubyggðum Ísraela á Vesturbakkanum, Bandaríkjunum þóttu þær ekki lengur brjóta gegn alþjóðalögum. Þá hét hann því að skipa íhaldssama dómara. Það stóð hann við og náði að skipa þrjá hæstaréttardómara á kjörtímabilinu; Neil Gorsuch, Brett Kavanaugh og Amy Coney Barret. Nú eru sex dómarar af níu íhaldssamir. Lægri skattar voru annað kosningaloforð og í desember 2017 var skattalöggjöf Trumps samþykkt. Þá var gerð ein viðamesta breyting sem gerð hefur verið á bandarísku skattalöggjöfinni í ríflega þrjátíu ár. Löggjöfin kom á umtalsverðum skattalækkunum, sem einkum hafa nýst fyrirtækjum og hinum efnameiri í landinu.

Þá var stefnan að hætta stríðsbrölti og kalla hermenn heim. Bandaríkin hafa staðið í stríðsrekstri lengi og víða. Þótt Trump hafi ekki hafið nein ný stríð þá eru bandarískar herstöðvar að mestu leyti á sínum stöðum, en færri hermenn eru í Afganistan, Sýrlandi og Írak. Í janúar 2020 virtist lítið vanta upp á að stríð brytist út milli Bandaríkjanna og Írans eftir að yfirhershöfðinginn Qasem Soleimani var drepinn í drónaárás bandaríska hersins. Trump hafði einnig lofað að útrýma hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki. Leiðtogi þeirra Abu Bakr al Baghdadi var veginn á hans vakt en samtökunum hefur þó ekki verið útrýmt. 

Að lokum er það eitt af helstu og fyrirferðamestu kosningaloforðum Trump; múrinn á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Mexíkó átti líka að greiða kostnaðinn. Viku eftir að hann tók við embætti undirritaði hann tilskipun um að reisa skyldi 3.200 kílómetra langan múr á landamærunum. Í stuttu máli þá er búið að byggja um 800 kílómetra vegg en Mexíkó hefur ekki borgað fyrir hann. Á vefsíðu Hvíta hússins er farið ítarlega yfir þau atriði sem stjórn Trumps telur sér til tekna og þar segir að 87% færri hafi komið „ólöglega“ yfir landamærin þar sem múrinn hefur verið reistur. 

„Fake news,“ mildi gagnvart öfgahópum og börn í búrum

Síðsumars 2017 var neyðarástandi lýst yfir í Charlottesville í Virginíu-ríki. Hundruð manna sem kölluðu sig hvíta þjóðernissinna gengu fylktu liði í borginni með kyndla í hönd. Fólkið var þangað komið til að mótmæla áformum um að fjarlægja styttu af herforingjanum Robert Lee á torgi í borginni. Lee fór fyrir hersveitum Suðurríkjanna í bandaríska borgarastríðinu, þar sem sunnanmenn börðust meðal annars gegn afnámi þrælahalds. Fjöldi fólks særðist í átökum og 32 ára kona dó þegar maður ók bíl sínum vísvitandi inn í hóp andstæðinga öfga-þjóðernissinnanna. Trump forðaðist að fordæma hópinn og sagði að báðir hópar ættu sök á afleiðingum óeirðanna. Það væri gott fólk í báðum hópum. 

Trump skammaðist svo út í fjölmiðla fyrir að hafa fjallað með gagnrýnum hætti um ummæli sín. Óbeit hans á fjölmiðlum er annar rauður þráður í gegnum forsetatíð hans. Trump segir þeim ekki treystandi, þetta séu allt falsfréttir. Raunar má segja að hefðbundnir blaðamannafundir þar sem forsetinn situr fyrir svörum hafi verið fátíðir á síðari hluta valdatíðar Trumps. Hann ræddi stundum við fjölmiðla á leið úr eða í þyrlu þegar hann var á ferðalagi. Ein birtingamynd þess hvernig slæm samskipti Trumps voru við fjölmiðla er uppákoma á hefðbundnum blaðamannafundi í Hvíta húsinu 2018. Þá fauk í Trump þegar Jim Acosta, fréttamaður CNN í Hvíta húsinu, spurði um kosningabaráttuna sem Trump rak varðandi þá innflytjendur og forsetinn hafði kallað innrás. 

Þegar Acosta spurði hvort forsetinn óttaðist hvað kæmi út úr Rússa-rannsókn Roberts Muellers snöggreiddist Trump. Hann veittist að Acosta og sagði það til skammar fyrir CNN að vera með hann í starfi. „Þú ert mjög dónalegur og hræðileg manneskja og það er til skammar hvernig þú hefur komið fram við Söruh Huckabee [fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins].“ Acosta var í kjölfarið sviptur blaðamannapassa að Hvíta húsinu. CNN höfðaði mál vegna þessa og alríkisdómari setti lögbann við því að yfirmenn Hvíta hússins hefðu svipt Acosta aðgangi og blaðamannapassa. Síðar féll Hvíta húsið frá banninu en ákvað að setja fréttamönnum nýjar reglur. Þeim yrði til að mynda aðeins heimilt að bera upp eina spurningu hver og það væri forsetans eða ráðgjafa hans að ákveða hvort fréttamaðurinn fengi að fylgja henni eftir með annarri spurningu eða ekki.

Harðlínustefna Trumps í innflytjendamálum hefur verið afar umdeild og sætt harðri gagnrýni. Mótmæli gegn henni komust í hámæli eftir að ákveðið var að aðskilja börn frá foreldrum sínum við komu inn í Bandaríkin utan hefðbundinna landamærastöðva og án tilskilinna leyfa. Átti þetta að vera letjandi fyrir fólk að reyna að komast ólöglega inn í landið. Myndir af börnum sem voru vistuð í rýmum sem minntu einna helst á búr vöktu reiði víða um heim. 

Ákærur til embættismissis og viðbrögð við heimsfaraldri

Fyrr í þessum mánuði varð Trump svo fyrsti forsetinn sem er ákærður til embættismissis tvisvar. Meint brot hans felast í að egna stuðningsmenn sína til að ráðast inn í þinghúsið í Washington 6. janúar. Trump hafði boðað stuðningsfólk sitt á fjöldafund þann dag sem yrði sögulegur. Á sama tíma voru báðar þingdeildir á fundi þar sem staðfesta átti kjör Joe Biden formlega. Í ræðu sinni á fundinum hvatti Trump stuðningsfólk sitt til þess að ganga að þinghúsinu og sagði þau verða að sýna styrk.

Fyrr í þessum mánuði varð Trump svo fyrsti forsetinn sem er ákærður til embættismissis tvisvar. Meint brot hans felast í að egna stuðningsmenn sína til að ráðast inn í þinghúsið í Washington 6. janúar. Trump hafði boðað stuðningsfólk sitt á fjöldafund þann dag sem yrði sögulegur. Á sama tíma voru báðar þingdeildir á fundi þar sem staðfesta átti kjör Joe Biden formlega. Í ræðu sinni á fundinum hvatti Trump stuðningsfólk sitt til þess að ganga að þinghúsinu og sagði þau verða að sýna styrk.

Síðast en ekki síst er það kórónuveirufaraldurinn sem er yfir og allt um kring. Trump hefur verið gagnrýndur fyrir að bregðast seint og illa við og fyrir að gera ítrekað lítið úr COVID-19. Pólitískir andstæðingar hans og fleiri eru sammála um að viðbrögð Trumps vegna faraldursins teljist á meðal mestu hörmunga sem gengið hafi yfir Bandaríkin. Yfir 400 þúsund hafa látist úr sjúkdómnum í Bandaríkjunum einum og milljónir eru án atvinnu. Meðal annars þá viðurkenndi Trump í viðtali við blaðamanninn Bob Woodward að hafa vísvitandi gert lítið úr faraldrinum.

Fjölmargt fleira gekk á í valdatíð Trumps og óhætt er að segja að hún hafi verið óhefðbundin. Trump notaði til dæmis að mestu samfélagsmiðla til þess að koma stefnu sinni á framfæri og þá helst Twitter. Enda treysti hann fjölmiðlum ekki og þótti kannski óþægilegt að þurfa að svara gagnrýnum spurningum. Þá ætlar hann ekki að mæta á innsetningarathöfn Bidens síðar í dag, líkt og hefð er fyrir. Hann ætlar frekar að halda kveðjuathöfn fyrir sjálfan sig. 

Hvað tekur við hjá Trump?

Því hefur verið velt upp að Trump stefni á forsetaframboð árið 2024. Hvort það verður raunin leiðir tíminn í ljós. „Ég býst við að hann hafi hugmyndir um að búa til einhvers konar ættarveldi, hvort sem það er að eitt af börnunum hans fari fram eða að hann bjóði sig aftur fram,“ sagði Silja Bára Ómarsdóttir í viðtali á Rás 1 fyrr í þessum mánuði.

Barbara Perry, deildarstjóri forsetafræða (e. presidential studies) hjá Virginia Miller Center for Politics segir engan vafa á að Trump láti til sín taka á vettvangi fjölmiðla. „Hann er flinkur í að koma sér í sviðsljósið. Við vitum að hann verður áfram í fjölmiðlum, á meðan hann heldur heilsu. Við vitum að hann mun reyna að koma á fót einhvers konar íhaldssömu fjölmiðlaveldi þar sem hann og fjölskylda hans verða í forgrunni, á því leikur enginn vafi. Enn í dag, jafnvel eftir atburðina við þinghúsið 6. janúar, nýtur hann stuðnings um 35% Bandaríkjamanna. Nærri 75 milljónir manna kusu hann, 12 milljónum fleiri en árið 2016. Svo hann nýtur enn stuðnings þriðjungs þjóðarinnar og ég sé það ekki breytast.“ 

20.01.2021 - 07:15