Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir lögreglu með gamaldags skilning á fötlun

Mynd með færslu
 Mynd:
Í skýrslu sem greiningardeild Ríkislögreglustjóra hefur gert um ofbeldi gegn fötluðum og Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í greiningardeildinni, ræddi í Kastljósi í gær kemur fram að ekki er skráð í lögreglukerfið, LÖKE, hvort brotaþoli er fatlaður við skráningu mála. Því er ekki unnt að draga saman fjölda mála sem varða fatlað fólk og hafa komið á borð lögreglu.

Í skýrslunni segir að ekki sé heimilt að skrá hvort fólk sé með fötlun því það séu heilsufarsupplýsingar.

„Eitt af því sem við rákum okkur á, þegar við fórum að skoða þetta ítarlega, er að við þurfum að fara í vinnu í sambandi við LÖKE. Við munum gera það í samstarfi við Persónuvernd  til þess að tryggja það að við séum að fara eftir lagaheimildum hvað varðar skráningu á viðkvæmum persónuupplýsingum,“ sagði Runólfur í gær. 

Ofbeldi gegn fötluðum jafn ósýnilegt í LÖKE og í samfélaginu

„Það er algjörlega fráleitt að það skuli hvergi koma fram,“ sagði Rannveig Traustadóttir, prófessor emerita við Háskóla Íslands og forstöðumaður Rannsóknarseturs í fötlunarfræðum. Eldri rannsóknir hennar voru meðal annars lagðar til grundvallar skýrslu lögreglu en rannsóknarsetrið var ekki haft í samráði við gerð hennar.

„Fötlun er fyrst og fremst félagsleg en ekki heilsufarsleg. Þótt þú notir hjólastól og farir um í honum geturðu verið við góða heilsu. Það er mjög gamaldags að fara með fötlun sem læknisfræðilegt fyrirbæri. Þá er mikið í ólagi með þetta kerfi,“ sagði Rannveig í dag. 

„Ofbeldi gegn fötluðu fólki er þá jafn ósýnilegt í þessu LÖKE kerfi og það er í samfélaginu,“ sagði Rannveig.

Ekki eigi að sjúkdómsgera fötlun

„Það sem sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er fyrst og fremst ætlað að breyta er samfélagið en ekki fötluðu fólki, því fatlað fólk er eðlilegur hlutur af mannlegum margbreytileika.“ Það eigi ekki að sjúkdómsgera fötlun.

Hún segir lögreglu hafa mistekist að tileinka sér nýjan skilning á fötlun. Það sé mjög alvarlegt ef réttarvörslukerfið hefur ekki þann skilning. 

Í skýrslu greiningardeildar kom fram að ríkislögreglustjóri telur að talsverðra breytinga sé þörf standi vilji til þess að fá fram upplýsingar um umfang vandans á Íslandi og rannsaka brot gegn fötluðum líkt og Norðmenn hafa meðal annarra gert.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Runólfur sagði að það þyrfti fleiri innlendar rannsóknir á málaflokknum til að fá skýrari sýn um hvernig takast eigi á við vandann um falið ofbeldi gegn fötluðum.

Gerendur fái vægari dóma þegar brotið er á fötluðum

Helstu niðurstöður skýrslu greiningardeildar lögreglur eru að réttarvarsla fatlaðs fólks er lakari en annarra, vegna ofangreinds, nær ekkert vitað um ofbeldi gegn fötluðum körlum og fötluð börn eru fjórum sinnum líklegri en önnur til þess að verða fyrir ofbeldi.

„Þessi viðkvæmi hópur er líklegri til þess að verða fyrir ofbeldi. Hann er ólíklegri að tilkynna það,“ sagði Runólfur.

Samkvæmt nýrri norskri rannsókn sem lögregla vísar í lýkur tíunda hverju ofbeldis- og kynferðisbrotamáli með skilorðslausum dómi þegar brotaþoli er fatlaður. 

„Þetta eru mjög margar stórar spurningar,“ sagði Runólfur í gær. „Norska rannsóknin sem var nokkuð ítarleg hún bendir til þess að dómar í þessu máli séu vægari og þarna köllum við eftir því að fræðasamfélagið aðstoði okkur í þessu og rannsaki þetta. Hver er ástæðan fyrir þessu ef þetta er raunverulega svona?“

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur ekki verið farið yfir dómskjöl skipulega til að leggja mat á hvort það sama eigi við á Íslandi.