Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Lesa upp úr dagbókum ef þær verða ekki eldsmatur áður

Mynd: - / -

Lesa upp úr dagbókum ef þær verða ekki eldsmatur áður

20.01.2021 - 13:06

Höfundar

Rithöfundahjónin Bergþóra Snæbjörnsdóttir og Bragi Páll Sigurðarson lesa brot hvaðanæva að og mögulega úr eigin dagbókum á húslestri í Gerðubergi.

Hjónin verða með húslestur í menningarhúsinu Gerðubergi í kvöld, miðvikudaginn 20. janúar. „Þetta verður sitt lítið af hverju, eitthvað úr eigin verkum en svo langar okkur mest að vera með höfunda sem voru okkur innblástur þegar við vorum að skrifa bækurnar okkar,“ segir Bergþóra í Mannlega þættinum á Rás 1.

Mögulega lesa þau einnig upp úr dagbókunum sínum en á Bergþóru má þó heyra að hætt sé við því að þær verði eldsmatur áður en húslestur hefst.

„Við höfum verið með fyrirlestra í grunnskóla á unglingastigi og þar höfum við verið að tala um dagbókarskrif sérstaklega og sýna okkar dagbækur, síðan við vorum unglingar og börn,“ segir Bergþóra, sem segist samt hafa fyrirskipað að sínar verði brenndar. „Ég held alltaf að ég muni vaxa upp úr því, að ég hugsi með mér að það verði gaman að eiga þetta, en það breytist aldrei að alltaf þegar ég tek þær upp þá eru þær jafn vandræðalegar. Þetta fjallar allt um stráka, sem ég var skotin í, kláðamaur og rauða hunda og ýmis vandamál sem fylgja því að vera barn.“

Bragi Páll á ekki við sama sálarstríð að etja. „Ég held að þetta komi inn á muninn á karlkyns og kvenkyns höfundum hvað varðar hrokann. Eins og [Bergþóra] segir, konur byrja að gefa út mun seinna, á meðan karlar eru svo uppfullir af sjálfum sér og að allt sem þeir skrifi sé snilld. Ég held að mjög margir, sérstaklega karlkyns rithöfundar á Íslandi, séu sífellt að safna í kvikmyndina sem verður byggð á þeim.“

„Ég var líka bara alltaf skotin í „semi“-frændum mínum, verandi utan af landi, þannig að það var meira vandræðalegt,“ bætir Bergþóra við í léttum dúr.

Heiðarleg krítík heima fyrir

Þau gáfu bæði út sínar fyrstu skáldsögur á sama tíma, Svínshöfuð og Austur, árið 2019 en höfðu áður gefið út ljóðabækur. Bergþóra segir að það sé mikill lúxus að deila heimili með öðrum rithöfundi. „Við getum lesið yfir hjá hvort öðru og velt vöngum yfir pælingum og hugmyndum sem við erum með. Þannig að við eigum svolítið í verkum hvort annars og maður þorir að vera heiðarlegur við maka sinn og er ekkert að skafa utan af því. Þannig að það er mjög gott að hafa einhvern sem segir manni að þetta sé ekki nógu gott.“

Bragi Páll tekur undir það og segir það augljósan kost að fá pistla sína ritrýnda áður en þeir fara út fyrir hússins dyr. „Ég held að það sé betra að fá vondu dómana áður en textinn fer út af heimilinu. Eins og hún segir þá þorum við að koma með uppbyggilega gagnrýni þannig að ég held að það sé ótvíræður kostur. Ég til dæmis skrifa svolítið af pistlum, oft eru þeir tengdir málefnum líðandi stundar og þá er mjög þægilegt að fá samstundis yfirlestur og heiðarlega krítík á það sem muni stuða fólk og sé ósmekklegt og þurfi að fara, án þess að textinn þurfi að fara út úr húsi.“

Húslestur hjónanna verður klukkan 20 í kvöld í menningarhúsinu Gerðubergi. Skráning er á allflesta viðburði Borgarbókasafnsins og er sóttvarnareglum fylgt í hvívetna. Hægt er að nálgast skráningarform á vef Borgarbókasafns.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Stal grimmt frá fjölskyldu ástmannsins

Bókmenntir

Fljótandi að feigðarósi í hamfarakenndri framvindu

Bókmenntir

Margslungin og átakanleg fjölskyldusaga

Bókmenntir

Innra með leynast bæði gerandi og þolandi