Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ítalska stjórnin komst naumlega hjá falli

20.01.2021 - 03:35
epa08949998 Matteo Renzi and Teresa Bellanova during a debate in the Senate in Rome, Italy, 19 January 2021. Following the resignation of two ministers in Italian Prime Minister Conte's coalition government over a dispute on spending of EU funds during the pandemic, the Italian government is on the verge of another crisis.  EPA-EFE/ROBERTO MONALDO / POOL
 Mynd: EPA-EFE - LaPresse POOL
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, og ríkisstjórn hans stóðu af sér vantrauststillögu í öldungadeild ítalska þingsins í gær, með naumindum þó. Einungis hjáseta fyrrverandi samstarfsflokks og óvæntur stuðningur tveggja stjórnarandstæðinga forðaði stjórninni frá falli.

Ríkisstjórnin hefur átt undir högg að sækja vegna kórónaveirufaraldursins og viðbragða hennar við honum. Innan stjórnarinnar hefur líka verið tekist á um hvaða leiðir skuli fara í baráttunni gegn farsóttinni, sem óvíða hefur valdið meiri hörmungum en á Ítalíu. Ósættið varð að lokum svo mikið að meirihlutastjórn Contes breyttist í minnihlutastjórn í síðustu viku, þegar flokkurinn Italia Viva, eða Lifi Ítalía, sagði sig frá stjórnarsamstarfinu.

Stjórnin ekki með meirihluta

Stjórnarandstaðan, með hægriflokkana Norðurbandalagið og Forza Italia í fararbroddi, lagði þá fram vantrauststillögu sem var felld með hreinum meirihluta í neðri deild þingsins á mánudag, en litlu mátti muna að hún fengi brautargengi í öldungadeildinni.

Þar var hún felld með 156 atkvæðum gegn 140. 321 fulltrúi á sæti í öldungadeildinni, þannig að Conte tókst ekki að tryggja sér stuðning meirihluta þeirra. Hins vegar sátu nær allir þingmenn fyrrverandi samstarfsflokksins Italia Viva hjá, auk þess sem tveir þingmenn Forza Italia, flokks Silvios Berlusconi, studdu stjórnina. Voru þeir umsvifalaust reknir úr flokknum eftir að þeir sviku lit.

Conte vígreifur

Þótt ríkisstjórn Demókrata og Fimmstjörnuhreyfingarinnar hafi ekki lengur meirihluta á þingi og þurfi því að reiða sig á stuðning óháðra þingmanna eða þingmanna úr stjórnarandstöðu var forsætisráðherrann vígreifur eftir atkvæðagreiðslu gærkvöldsins. „Ítalía má engan tíma missa,“ skrifaði Conte á Twitter, „Nú höldum við tafarlaust áfram vinnu okkar við að komast í gegnum faraldurinn og efnahagskreppuna.“

Stjórnarandstaðan krefst enn afsagnar

Leiðtogar stjórnarandstöðunnar kalla eftir afsögn Contes og kosningum í framhaldinu, í ljósi þess að honum tókst ekki að tryggja sér stuðning meirihluta öldungadeildarinnar. Skoðanakannanir benda til þess að ef boðað yrði til kosninga á Ítalíu nú, myndu Forza Italia og Norðurbandalagið fara með sigur af hólmi.