Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hefði ekki ráðlagt sjálfum sér að verða rithöfundur

Mynd: RÚV / RÚV

Hefði ekki ráðlagt sjálfum sér að verða rithöfundur

20.01.2021 - 18:00

Höfundar

Andri Snær Magnason, handhafi viðurkenningar Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins, segir að hæfileikinn til að hafa brennandi áhuga á því málefni sem hann tekst á við hverju sinni hafi teymt hann áfram í skrifunum.

„Manni fannst alltaf síðasta bók vera síðasta bók vegna þess að maður vissi ekki hvað kæmi næst,“ segir Andri Snær þegar hann er spurður að því hvort hann hefði nokkra hugmynd um hvert ritstörfin myndu leiða hann í framtíðinni þegar hann steig sín fyrstu skref sem rithöfundur. „Um 1996 hafði ég allt í einu gefið út þrjár bækur og ég hafði sópað upp öllu sem ég hafði hugsað frá því ég var 17 til 23 og ég var algjörlega búinn að gefa út allt sem sem var einhvers virði.“

En þá fékk Andri skyndilega áhuga á rímum. „Ég hef átt það til í gegnum allan ferilinn að finnast eitthvað vera merkilegra en það sem ég get skrifað, það er að segja mér fannst miklu merkilegra að gefa út rímnadisk þá heldur en að skrifa nýja bók. Mér fannst ég koma miklu meira á framfæri með því að gera það. Síðan þegar náttúruverndarbaráttan tekur við þá fannst mér Þjórsárver miklu merkilegri heldur en nokkuð sem ég gæti skrifað. Ég vissi eiginlega ekki hvernig ég gæti skrifað um Þjórsárver, mér fannst ég ekki hafa næga þekkingu til að skrifa um þau mál. Ég hefði örugglega aldrei ráðlagt þessum unga manni með fyrstu ljóðabókina að verða rithöfundur.“

Var mjög hræddur þegar hann gaf út Draumalandið

Áður en Andri Snær gaf út Draumalandið fann hann það á sér að hann stæði á tímamótum í lífi sínu. „Vikuna áður en hún kom út sagði ég við konuna mína: Nú erum við í tíma í lífi okkar sem er fyrir Draumalandið. Ég skynjaði það að ég væri að fara að umbreytast varanlega, bæði sem höfundur og gagnvart almenningi og öðrum. Ég var mjög hræddur um að ég væri að fara að styggja einhvern meira en ég hefði viljað.“

Andri segir að málefnið þurfi alltaf að vera það mikilvægasta í starfinu. „Ég þarf að selja mér það að það er ekkert mikilvægara en akkúrat það sem ég er að gera þá stundina. Það á við um Bláa hnöttinn líka og meira að segja rímnadiskurinn, það var ekkert mikilvægara í heiminum.“

Eins og frumbyggjaþjóð sem fær framandi tæki í hendurnar

Í ávarpi hans þegar hann tók við viðurkenningunni varð honum tíðrætt um tækninýjungar og upplýsingamergð. „Ég held að við séum í bernskuskeiði í umgengni við internetið. Við erum eins og frumbyggjaþjóð sem fær tæki upp í hendurnar sem hún veit ekkert hvað er. Það hefur tekið mörg hundruð ár að læra að umgangast bókina og útvarpið og ég held að ákveðið stjórnleysi hafi einkennt netið. Það veltur svo hratt og enginn getur náð tökum á því.“

Hann er uggandi yfir fíkniáhrifunum sem gert hafa vart við sig í auknum mæli síðustu ár. „Þetta er ótrúlega áhrifamikill miðill fyrir krakka og unglinga. Við sjáum alveg hvernig við erum búin að missa heila kynslóð út úr bókmenntunum inn í þetta form. Ég veit ekki til langs tíma hvaða áhrif það hefur eða hvernig þau upplifa að þetta hafi verið. Ég mundi segja að við þurfum að fara varlega. Maður á að vera umburðarlyndur samfélagslega og þiggja tæknina, en á maður að afhenda einhverjum milljarðamæringum úti í heimi allt sitt; lýðræðið, upplýsingaflæðið og efnið sitt bara af því að maður er svo umburðarlyndur og taka því sem gefnu að það verður farið vel með þetta?“

Eiríkur Guðmundsson og Guðni Tómasson ræddu við Andra Snæ Magnason, handhafa viðurkenningar Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins, í Víðsjá á Rás 1.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Andri Snær fær viðurkenningu Rithöfundasjóðs RÚV