Hljómsveitin New Radicals sló í gegn 1998 með laginu You Get What You Give, af fyrstu og einu plötu sveitarinnar. Nokkrum mánuðum síðar hætti hún störfum og ekkert heyrst í henni þar til nú.
Tilkynnt hefur verið að hljómsveitin komi saman aftur í sjónvarpsdagskrá sem send verður út í tilefni af embættistöku Joes Bidens og Kamölu Harris verðandi forseta og varaforseta Bandaríkjanna.
Það er ekki að ástæðulausu að þetta lag, sem flestir höfðu vafalítið gleymt, varð fyrir valinu. Í sjálfsævisögu Joes Bidens, Promise Me, Dad sem kom út 2017 er sagt frá því að lagið hafi blásið von í brjóst þegar sonur hans, Beau, stríddi við krabbamein í heila. Biden segir að það hafi orðið að eins konar þemalagi sonar hans og þeir hafi hlustað á það mörgum sinnum saman.
„Það eina sem gæti mögulega orðið til þess að hljómsveitin komi saman á ný, þó ekki sé nema í einn dag, er von um að lagið okkar geti orðið að litlum ljósgeisla á myrkum tímum sem þessum,“ segir Gregg Alexander, sem er potturinn og pannan í sveitinni.
Stjörnufans í kringum embættið á ný
New Radicals fær það hlutverk að binda endahnútinn á skemmtidagskrána Parade Across America. Verður sveitin á meðal fjölda tónlistarmanna sem koma fram daginn sem Biden sver embættiseiðinn. Það hefur vakið athygli hve auðvelt Joe Biden hefur átt með að laða stjörnur að forsetaembættinu á ný, Donald Trump fráfarandi forseta til mikilla ama.
Fyrir fjórum árum, þegar Donald Trump var settur í embættið, sniðgekk tónlistarfólk og leikarar athöfnina. Hljómsveitin 3 Doors Down, sem margir hefðu kosið að gleyma, var til að mynda stærsta tónlistaratriðið.