Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Gleymdar stjörnur vakna til lífsins fyrir Biden

Mynd með færslu
 Mynd: BMI - Youtube

Gleymdar stjörnur vakna til lífsins fyrir Biden

20.01.2021 - 10:19

Höfundar

Hljómsveitin New Radicals kemur saman aftur í dagstund til að hylla nýjan forseta Bandaríkjanna. „Hvaða hljómsveit er það?“ er von að sumt fólk spyrji en þetta er ekki í fyrsta sinn sem hljómsveit vaknar af löngum dvala til að koma fram við innsetningu nýs forseta.

Hljómsveitin New Radicals sló í gegn 1998 með laginu You Get What You Give, af fyrstu og einu plötu sveitarinnar. Nokkrum mánuðum síðar hætti hún störfum og  ekkert heyrst í henni þar til nú. 

Tilkynnt hefur verið að hljómsveitin komi saman aftur í sjónvarpsdagskrá sem send verður út í tilefni af embættistöku Joes Bidens og Kamölu Harris verðandi forseta og varaforseta Bandaríkjanna.

Það er ekki að ástæðulausu að þetta lag, sem flestir höfðu vafalítið gleymt, varð fyrir valinu. Í sjálfsævisögu Joes Bidens, Promise Me, Dad sem kom út 2017 er sagt frá því að lagið hafi blásið von í brjóst þegar sonur hans, Beau, stríddi við krabbamein í heila. Biden segir að það hafi orðið að eins konar þemalagi sonar hans og þeir hafi hlustað á það mörgum sinnum saman. 

„Það eina sem gæti mögulega orðið til þess að hljómsveitin komi saman á ný, þó ekki sé nema í einn dag, er von um að lagið okkar geti orðið að litlum ljósgeisla á myrkum tímum sem þessum,“ segir Gregg Alexander, sem er potturinn og pannan í sveitinni.

Stjörnufans í kringum embættið á ný

New Radicals fær það hlutverk að binda endahnútinn á skemmtidagskrána Parade Across America. Verður sveitin á meðal fjölda tónlistarmanna sem koma fram daginn sem Biden sver embættiseiðinn. Það hefur vakið athygli hve auðvelt Joe Biden hefur átt með að laða stjörnur að forsetaembættinu á ný, Donald Trump fráfarandi forseta til mikilla ama.

Fyrir fjórum árum, þegar Donald Trump var settur í embættið, sniðgekk tónlistarfólk og leikarar athöfnina. Hljómsveitin 3 Doors Down, sem margir hefðu kosið að gleyma, var til að mynda stærsta tónlistaratriðið.

Mynd með færslu
 Mynd: BMI
Þegar 3 Doors Down var upp á sitt besta, undir lok síðustu aldar.

Þegar umboðsmaður sveitarinnar var spurður að því af hverju hún hefði tekið lagið við athöfnina svaraði hann að allt umtal sé gott umtal. Það andaði síðan köldu milli Trump og frjálslyndari arms skemmtanaiðnaðarins í Bandaríkjunum næstu fjögur árin.

Clinton sannfærði Fleetwood Mac

Þátttaka skemmtikrafta í innsetningarathöfn Bandaríkjaforseta og tengdri skemmtidagskrá var raunar ekki mikið pólitískt bitbein fyrr en Trump kom til sögunnar, eins og kemur fram í úttekt blaðamanns Washington Post frá 2017.

Það var ekki flokksbundin ákvörðun að syngja fyrir nýjan forseta, tónlistarmenn sem studdu Repúblíkana komu glaðir fram þegar Demókrati sór eiðinn, og öfugt, án þess að það væri stórmál. Heiðurinn sem listamanni hlotnaðist af því að koma fram trompaði flokkslínur (en vafalítið hafa launin og kynningin einnig spilað inn í).

Demókratar hafa þó alltaf átt auðveldara með að lokka til sín tónlistarfólk eins og sást vel á innsetningarathöfn Bills Clintons 1993 eftir 12 ára valdatíð Repúblíkana. Þar var raunar önnur sveit lífguð við eftir langt hlé, líkt og New Radicals. Þemalag kosningabaráttu Clintons var Don‘t Stop með Fleetwood Mac og kom sveitin sérstaklega aftur saman, eftir að upp úr samstarfinu slitnaði í illu nokkrum árum áður, til að flytja lagið á innsetningarathöfninni.

Þegar Barrack Obama tók svo við embættinu 2009 hrönnuðust stærstu skemmtikraftar þjóðarinnar í kringum nýja forsetann. Aretha Franklin, Yo-Yo Ma og Itzhak Perlman fluttu tónlist við innsetningarathöfnina og utan hennar var gríðarstór tónleikadagskrá með Beyoncé, Garth Brooks, Bruce Springsteen og Stevie Wonder ásamt ýmsum stórleikurum Hollywood.

epa03548464 US President Barack Obama (R) greets singer Beyonce (L) after she performs the National Anthem during the public ceremonial inauguration on the West Front of the U.S. Capitol, Washington, DC, 21 January 2013. Obama defeated Republican candidate Mitt Romney on Election Day 06 November 2012 to be re-elected for a second term.  EPA/WIN MCNAMEE / POOL
 Mynd: EPA
Beyoncé tekur í spaðann á Barrack Obama þegar hann var settur í embætti. forseta Bandaríkjanna 2013.

Tengdar fréttir

Norður Ameríka

Stormasöm valdatíð Donalds Trump á enda

Stjórnmál

„Trump er afspyrnulélegur leiðtogi“

Tónlist

Trump fylgist fokvondur með stjörnum flykkjast að Biden