Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fjórir af hverjum tíu 90 ára og eldri bólusettir

Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson, Vi / RÚV
Meira en fjórir af hverjum tíu sem eru 90 ára og eldri hafa verið bólusettir gegn COVID-19. Bólusetning er ýmist hafin eða henni lokið hjá samtals 6200 samkvæmt nýrri upplýsingasíðu á covid.is

Dregur úr smitum á landamærum

Tvö innanlandsmit voru greind í gær - annað í sóttkví en hitt ekki. Í landamæraskimun í gær greindist eitt virkt smit í fyrri skimun og annað í seinni. Beðið er mótefnamælingar hjá fimm. Svo virðist sem dregið hafi úr smitum á landamærum síðustu daga eftir hálfgerða holskeflu frá áramótum sem náði hámarki með sautján smitum 12. janúar. 

Gott en ekki hægt að fagna, segir Thor

Frá Þorláksmessu hafa innanlandssmit einu sinni verið fleiri en tíu. Þau voru 11 á þrettándanum. Síðustu tíu daga frá 9. janúar hafa smitin verið allt frá engu og upp í sex smit. Fjóra daga hafa þau verið tvö og einn daginn eitt. 

Thor Aspelund prófessor í líftölfræði við HÍ segir vissulega gott að svo fá smit hafi greinst undanfarið en að menn séu uggandi yfir breska afbrigði kórónuveirunnar sem smitist hraðar og því sé ekki hægt að fagna.  

Sexþúsund og tvöhundruð fengið sprautu

Í dag var bætt inn nýrri síðu á covid.is um tölulegar upplýsingar um bólusetningar. Þar er má segja hægt að sjá næstum allt nema nöfn hinna bólusettu. Bólusetning er hafin hjá 5725 það er þau sem eru búin að fá fyrri sprautuna og að 480 búnir með báðar. 

Hægt er að skoða hvaða bóluefni hefur verið notað og á hvaða aldri fólk er sem fengið Pfizer eða Moderna. Þar sést að enginn 70 ára og eldri hefur verið bólusettur með Moderna lyfinu. 

Búið er að bólusetja flesta miðað við hundrað þúsund íbúa á höfuðborgarsvæðinu, á Norðurlandi og Austurlandi. 

Ánægjulegt er að sjá hve búið er að bólusetja marga í elsta aldurshópnum. 42 prósent þeirra sem eru 90 ára og eldri hafa verið bólusett. Þar af hafa tæp fimm prósent lokið bólusetningu. 
Búið er að bólusetja tæp 13 prósent sem eru 80 ára og eldri en fæstir hafa lokið bólusetningu. Aðrir aldurshópar eru vel undir fimm prósentum.