Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Efla á félagstengsl og frístundir barna í Breiðholti

20.01.2021 - 09:18
Mynd með færslu
 Mynd: Dagur Gunnarsson
Sérstaklega er nú unnið að því að auka þátttöku íbúa Breiðholtshverfa af erlendum uppruna, í íþrótta- tómstundastarfi og til eflingar lýðheilsu. Unnið er að því að efla lýðheilsu í öllum hverfum en í Breiðholti gengur verkefnið undir heitinu „Frístundir í Breiðholti“.

Á vef Reykjavíkurborgar segir að tveir starfsmenn þjónustumiðstöðvar hverfisins stjórni verkefninu, þau Þráinn Hafsteinsson og Nichole Leigh Mosty í samráði við íbúa, leik- og grunnskóla, frístundamiðstöð og íþrótta- og frístundafélög.

Þau segja mikilvægt að huga að andlegri líðan og hollu líferni. Ætlunin er að hvetja börn í Breiðholti til aukinnar þátttöku í íþróttum og frístundastarfi með fulltingi foreldra þeirra og að sjá til þess að frístundakortið verði nýtt til jafns við það sem gerist í öðrum hverfum borgarinnar.

Jafnframt er markmiðið að efla íslenskunotkun og félagsleg tengsl barna hverfisins með ólíkan bakgrunn. Til þess að byggja upp traust tengsl margvíslegra hópa íbúa hverfisins er nú leitað að áhugasömu fólki, nokkurs konar „sendiherrum“ eða tengiliðum milli íbúa innbyrðis og við skipuleggjendur frístunda og borgina sjálfa.

Óskar Dýrmundur Ólafsson hverfisstjóri Breiðholts segir Breiðholtshverfi bera með sér þær breytingar sem fylgi fólksflutningum landa á milli. „Við viljum gera fólki hvaðan sem það kemur kleift að búa í hverfinu og auðvelda því að vera um leið virkir þátttakendur í okkar fjölbreytta samfélagi,“ segir Óskar.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV