Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Breskir tónlistarmenn birta opið bréf til stjórnvalda

epa07618934 English singer Ed Sheeran performs on stage at  Luz Stadium, Lisbon Portugal, 01 June 2019.  EPA-EFE/MIGUEL A. LOPES
 Mynd: EPA-EFE - Lusa

Breskir tónlistarmenn birta opið bréf til stjórnvalda

20.01.2021 - 13:21

Höfundar

Tónlistarfólk í Bretlandi er afar reitt breskum stjórnvöldum sem ætla ekki að beita sér fyrir því að tónlistarfólkið geti farið í tónleikaferðir til landa Evrópusambandsins án þess að sækja um öll tilskilin leyfi í hverju landi.

Rúmlega 100 breskir tónlistarmenn, þar á meðal Elton John, Joss Stone, Ed Sheeran og Judith Weir, birtu opið bréf til stjórnvalda í dag. Í bréfinu er hvatt til þess að stjórnvöld semji um undantekningar fyrir breskt tónlistarfólk á tónleikaferðalögum. Skammarlegt sé hvernig bresk stjórnvöld hafi sniðgengið tónlistariðnaðinn í landinu í Bretlandi. 

Nú, þegar Bretar eru ekki lengur í Evrópusambandinu, getur reynst erfitt fyrir tónlistarfólk frá Bretlandi að fara í tónleikaferðir um álfuna. Nú þarf að sækja um ferðaáritanir og atvinnuleyfi fyrir alla sem vinna við tónleikana auk þess sem sérstakt leyfi þarf fyrir flutningabíla sem flytja búnað á milli landa. Margir óttast að það geti reynst bæði dýrt og tímafrekt að sækja um öll þessi leyfi, sérstaklega fyrir tónlistarfólk sem er að hefja feril sinn. 

Bresk stjórnvöld segja að reiðin ætti að beinast að Evrópusambandinu sem hafi hafnað tilboði breskra stjórnvalda. Bretar hafa einnig hafnað öllum viðræðum við Evrópusambandið um þetta og segja að einu tilboðin frá sambandinu samræmist ekki stefnu breskra stjórnvalda um að taka aftur völdin á eigin landamærum. Caroline Dinenage menningarráðherra sagði á breska þinginu að forgangur stjórnvalda væri að tryggja yfirráð á landamærunum og tillaga Evrópusambandsins gengi gegn þeim loforðum Íhaldsflokksins til kjósenda. 

Ein af kröfum tónlistarfólksins er að stjórnvöld beiti sér fyrir því að evrópskir tónlistarmenn geti sótt um sérstaka tónlistarferðaáritun sem gildi í tvö ár og geri tónlistarfólki kleift að fara um Evrópu og koma fram á tónleikum. 

Athygli vekur að einn af þeim sem skrifar undir yfirlýsinguna er Roger Daltrey, söngvari The Who. Hann barðist fyrir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og sagði það engu skipta fyrir breskt tónlistarfólk þar sem tónleikaferðir um Evrópu voru þekktar löngu fyrir tíma Evrópusambandsins.