Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Betra loft í Evrópu gæti bjargað 50.000 manns á ári

20.01.2021 - 06:13
Mynd með færslu
Þótt loftgæðin í höfuðborginni séu með allra minnsta móti á lygnum nýársnóttum er Reykjavík í hópi þeirra norrænu borga sem bjóða upp á hreinasta loftið þegar allt er eðlilegt. Mynd: RÚV - Kristján Þór Ingvarsso - RÚV
Með því að halda loftmengun innan þeirra marka sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin mælir með mætti koma í veg fyrir yfir 50.000 ótímabær dauðsföll á ári hverju í Evrópu einni og sér. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem birtist í vísindaritinu Lancet Global Health í dag, þar sem kallað er eftir tafarlausum aðgerðum. Reykjavík er á meðal þeirra Evrópuborga þar sem loftgæði eru hvað mest.

Sjö milljónir ótímabærra dauðsfalla vegna loftmengunar

Sérfræðingar Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar áætla að loftmengun verði rúmlega sjö milljónum manna að aldurtila á ári hverju hér á Jörð og sé þar að auki ein helsta orsök veikinda og fjarvista frá vinnu og skóla. Verst er ástandið í borgum heimsins, þar sem bílaumferð og orkunotkun eru með mesta móti.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin mælist til þess að svifryksmengun sé haldið innan tíu milligramma á rúmmetra lofts, að ársmeðaltali, og að nituroxíð fari ekki yfir 40 milligrömm á rúmmetra.

Í rannsókninni, sem birt var í dag, er einuningis horft til þessara tveggja mengunarþátta og áætlað hversu mörg, ótímabær dauðsföll megi rekja til þeirra í nær 1.000 evrópskum borgum. Niðurstaðan er í stuttu máli sú að með því að koma menguninni niður fyrir viðmiðunarmörk Alþjóða heilbrigðismálatofnunarinnar mætti fækka þessum dauðsföllum um rúmlega 51.000 á ári.

Norrænar borgir á toppnum - líka Reykjavík

Ef hægt væri að auka loftgæðin í öllum þessum borgum þannig að þau yrðu sambærileg við það sem best gerist, segir í inngangi skýrslunnar, mætti fækka dauðsföllunum um nær 125.000 á ári. Og það sem best gerist í loftgæðum evrópskra borga gerist á Norðurlöndum - nánar tiltekið í Tromsö í Noregi, Umeå í Svíþjóð, Oulu í Finnlandi og Reykjavík.

Um 84 prósent Evrópubúa búa hins vegar við meiri svifryksmengun en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur heilsusamlegt. Verst er ástandið í Póllandi, Tékklandi og í Pó-dalnum á Ítalíu, þar sem þrjár borgir, Brescia, Bergamo og Vicenza, eru á meðal fimm menguðustu borga Evrópu.