Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Arftaka WOW gert að gera upp skuld við tvo forritara

20.01.2021 - 16:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur gert félaginu USAerospace Associates, sem keypti eignir úr þrotabúi WOW, að gera upp skuld sína við hugbúnaðarfyrirtækið Maverick. Heildarskuldin nemur 40 milljónum en frá því dragast greiðslur upp á tæpar 11 milljónir. Félagið hélt því fram að hugbúnaðarfyrirtækið hefði vanefnt samning sinn þar sem þjónustu þess hefði verið gölluð. Á það féllst dómurinn ekki.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að félagið hafi gert samning við Maverick í september fyrir tveimur árum. 

Samkvæmt samkomulaginu átti hugbúnaðarfyrirtækið að veita flugfélaginu vef-og hugbúnaðarþjónustu ásamt þróun fyrir flugrekstrartengda starfsemi félagsins.

Þessum samningi var sagt upp í desember sama ár en USAerospace Associates lagði á það áherslu að mikill vilji væri til að halda áfram „vegferðinni“ eins og það var orðað en með nýju og endurskoðuðu fyrirkomulagi. 

Hugbúnaðarfyrirtækið setti tvö skilyrði; að eftirstöðvar reikninga yrðu gerðar upp og að lagt yrði fram tilboð eða drög að samningi.  „Takk fyrir þessi viðbrögð. 150% skilningur gagnvart ykkar afstöðu enda stendur ekki annað til en að samningar milli aðila verði efndir,“ sagði í svari frá forsvarsmanni  USAerospace.

Í janúar á síðasta ári lýsti hugbúnaðarfyrirtækið yfir áhuga á viðræðum um frekara samstarf en áskilið að gera þyrfti upp skuld upp á 17 milljónir.  Viku seinna svaraði flugfélagið þar sem gerðar voru athugasemdir við verk hugbúnaðarfyrirtækisins.

Þessum athugasemdum var svarað sem fyrirslætti og Maverick krafðist þess að vanskil yrðu gerð upp. Í lok janúar krafðist flugfélagið síðan að hugbúnaðarfyrirtækið endurgreiddi tæpar 11 milljónir vegna „ónothæfrar þjónustu og hugbúnaðar.“  

Héraðsdómur segir í niðurstöðu sinni að USaerospace hafi ekki tekist að sanna þá staðhæfingu að hugbúnaðurinn hafi verið gallaður eða að hugbúnaðarfyrirtækið hafi vanefnt skuldbindingar sínar. 

Gögn málsins beri raunar með sér að lögmaður fyrirtækisins hafi ítrekað í samskiptum sínum sagt að greiðslur væru væntanlega en þær síðan ekki borist nema að afar takmörkuðu leyti. Þá bendir dómurinn á að vanskil af hálfu flugfélagsins hafi orðið til löngu áður en nokkrar athugasemdir voru gerðar við þjónustu hugbúnaðarfyrirtækisins.

USaerospace var því gert að greiða hugbúnaðarfyrirtækinu 40 milljónir að frádregnum greiðslum upp á tæpar 11 milljónir.