Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Allt í rúst á skíðasvæðinu á Siglufirði

20.01.2021 - 22:30
Mynd: Sigurður Þór Helgason Matric3 / RÚV
Skíðaskálinn í Skarðsdal á Siglufirði og gámar og vélar eru ónýt eftir snjóflóðið sem þar féll í nótt, segir umsjónarmaður skíðasvæðisins. Íbúar níu húsa sem rýmd voru á Siglufirði hafa allir fengið húsaskjól í nótt. 

Húsin sem rýmd voru vegna snjóflóðahættur eru undir Strengsgiljum og eru átta þeirra við götuna Norðurtún og eitt við Suðurgötu. Fyrir ofan húsin er varnargarðurinn Stóri-Boli frá því um aldamótin en vissara þótti að rýma húsin í varúðarskyni. Hættustig er í gildi á Siglufirði og óvissustig á Norðurlandi en þar ekki talin hætta í byggð. 

Hélt að rafmagnið væri farið af

Þegar Egill Rögnvaldsson umsjónarmaður skíðasvæðisins í Skarðsdal ók upp á skíðasvæðinu í morgun þótti honum heldur dimmt þegar hann leit upp að skíðaskálanum sem reistur var 2005.  

„Og hugsaði sem svo að það hefur bara örugglega farið rafmagnið en svo kom nátturulega bara annað í ljós að það var bara allt í rúst. Og hugsaði sem svo að það hefur bara örugglega farið rafmagnið af en svo kom nátturulega bara annað í ljós að það var bara allt í rúst.“ segir Egill.

Hvernig var aðkoman?

„Skíðaskálinn er nánast bara horfinn og skíðaleigan sem er í fjórum gámum, það er allt ónýtt. Og síðan erum við með verkstæðisaðstöðu í tveimur öðrum gámum þar sem við geymum bæði tól og tæki og snjósleða og fleira. Það er horfið. Og ég veit ekki alveg með snjótroðarann sem að er þarna fyrir neðan gámana. Hann er eitthvað skemmdur alveg örugglega þ.a. þetta er mikið tjón.“

Hvernig heldurðu að lyfturnar séu?

„Heyrðu, þær hafa sloppið. Lyftan sem er svona tíu metrum frá skálanum, hún bara slapp. Og það er einmitt þannig að ljósastaurar fimmtán metrum sko hinum megin við skálann og það fór ekkert flóð á ljósastaurana. Þannig að þetta hefur verið mjög mjótt flóð en hitt akkúrat þyrpinguna hjá okkur.“

Skíðaskálinn var á skilgreindu hættusvæði og til hefur staðið lengi að færa skíðasvæði eða skálinn neðar og skipulag var tilbúið, segir Egill, sem vill sem fyrst koma skíðalyftunum í gang.

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Þór Helgason Matric3 - RÚV