Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Á einhverju stigi munu Bandaríkin og Kína safna liði“

20.01.2021 - 21:00
Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV
Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra í Bandaríkjunum, segir að samkeppni við Kína verði áfram ráðandi þáttur í utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Þrýstingur á íslensk stjórnvöld að taka afstöðu um kínverska fjarskiptafyrirtækið Huawei sé þegar hafinn.

„Þegar horft er til utanríkisstefnu Biden stjórnarinnar þá finnst mér tvennt standa upp úr. Annars vegar, og það tengist innanlandsmálum og arfleið Trumps og þess vegna möguleika Bidens á endurkjöri þegar þar að kemur. Og það er það sem Biden og hans fólk kalla utanríkisstefnu fyrir millistéttina,“ segir Albert. Þannig sé Biden að reyna að höfða til hópa sem Trump náði vel til.

Bandaríkin og Kína safni liði

Hitt sem Albert segir standa upp úr er samkeppnin við Kína sem hann telur að verði áfram ráðandi í utanríkisstefnu Bandaríkjanna og hafi áhrif á svo gott sem alla þætti hennar. „Á einhverju stigi munu Bandaríkin og Kína safna liði og ganga eftir afstöðu ríkja til  ýmissa mála og þetta er þegar hafið.“ Þegar eru uppi tvö mál sem snerta Ísland. Annars vegar tilboð Kínverja um þátttöku í belti og braut - sem er umfangsmikið samgöngu- og viðskiptaverkefni og hins vegar hvort og að hve miklu leyti kínverska fjarskiptafyrirtækinu Huawei verður hleypt inn á markað. „Hvað varðar belti og braut þá hafa íslensk stjórnvöld ekki svarað tilboðinu enn þá eftir því sem ég best veit.“

„Og það er ekki búið að svara heldur varðandi fjarskiptafyrirtækið en menn munu ekki komast undan því mikið lengur. Það er reyndar frumvarp niðri á Alþingi til fjarskiptalaga sem felur í sér heimild samgönguráðherra til að útiloka samstarfsaðila - hugsanlega Huawei,“ segir Albert. Þannig við megum búast við þrýstingi frá bæði Bandaríkjunum og Kína? Ég held að sérstaklega hvað varðar Huawei málið þá sé sá þrýstingur hafinn.“