Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

12 þjóðvarðliðum vikið frá störfum í Washington

epa08950432 Members of the National Guard walk on the East front of the US Capitol as preparations continue for President-elect Joe Biden's inauguration ceremony at the US Capitol in Washington, DC, USA, 19 January 2021.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tólf manns hefur nú verið vikið úr þjóðvarðliðinu í Washington DC, sem ætlað er að sinna öryggisgæslu við embættistöku Joes Bidens og Kamölu Harris á morgun. Áður greindi alríkislögreglan frá því að tveimur mönnum hefði verið vikið úr þjóðvarðliðinu eftir að bakgrunnskönnun leiddi í ljós að þeir tengdust öfgasamtökum af einhverju tagi. AP-fréttastofan greindi svo frá því í kvöld og hefur það eftir heimildarmönnum í varnarmálaráðuneytinu að búið sé að víkja tíu til viðbótar frá störfum,

Allir tólf eru sagðir hafa tengsl við öfgahreyfingar yst á hægri væng stjórnmálanna og tveir þeirra eru sagði hafa lýst öfgakenndum skoðunum sínum á innrásinni í þinghúsið í síðustu viku á samfélagsmiðlum.

Tekið er fram að enginn þeirra hafi sett fram beinar hótanir í garð Bidens eða Harris, og að ekki sé vitað til þess að þeir séu flæktir í nein áform um ólöglegt athæfi í tengslum við embættistöku þeirra.

Þá liggur heldur ekki fyrir hvort tólfmenningunum hafi verið vikið úr þjóðvarðliðinu fyrir fullt og allt, eða einungis útilokaðir frá innsetningarathöfinni, þar sem um 25.000 félagar þeirra sjá um öryggisgæsluna.