Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja banna afneitun helfararinnar

19.01.2021 - 14:41
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
 Mynd: Fréttir
Þingflokkur Samfylkingarinnar, Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokka, og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingkona Viðreisnar, hafa lagt fram frumvarp um refsinæmi þess að afneita þjóðarmorði þýskra nasista. Rósa Björk Brynjólfsdóttir er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

„Hver sá sem opinberlega afneitar, gróflega gerir lítið úr, eða reynir að réttlæta eða samþykkja þjóðarmorð sem framin voru á vegum þýska nasistaflokksins í síðari heimsstyrjöldinni skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum,“ segir í frumvarpinu þar sem lagt er til að nýju ákvæði þess efnis verði bætt inn í almenn hegningarlög. Tjáningin geti til að mynda verið prentuð, munnleg eða hluti af list eða athöfn. Lögin gætu líka tekið til tjáningar á samfélagsmiðlum.

Telja frumvarpið standast stjórnarskrá

Í greinargerð eru færð rök fyrir því að frumvarpið brjóti ekki í bága við stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi. Til dæmis sé með því fullnægt lagaáskilnaði stjórnarskrárinnar til að takmarka tjáningarfrelsið og einnig því skilyrði að takmörkun tjáningarfrelsis sé nauðsynleg og samræmist lýðræðishefðum.

Þá er vísað til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi komist að þeirri niðurstöðu í dómi 3. október 2019 í máli Pastörs, þýsks þingmanns, gegn Þýskalandi að bann við tjáningu gegn helförinni samræmdist mannréttindasáttmála Evrópu. Þingmaðurinn var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa brotið gegn þýskum hegningarlögum með tjáningu um helförina. 

Í dómi Mannréttindadómstólsins kom meðal annars fram að Pastörs hefði með ósannindum viljandi varpað rýrð á gyðinga og þær ofsóknir sem þeir voru beittir í seinni heimsstyrjöldinni. „Jafnframt taldi Mannréttindadómstóllinn að með sakfellingunni hefðu viðbrögð þýskra yfirvalda verið í samræmi við meðalhóf og ekki farið í bága við áskilnað um að þau væru nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi,“ segir í frumvarpinu.

Vilja standa vörð um söguna

Í frumvarpinu segir að nauðsynlegt sé að standa vörð um sögu þessara hörmunga sem áttu sér stað á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar: „Og koma í veg fyrir að unnt verði að grafa undan henni, gera lítið úr, rangfæra eða falsa svo að slíkir atburðir endurtaki sig aldrei.“ Þá vísað er til uppgangs glæpa sem byggjast á gyðingaandúð víða í nágrannalöndunum. „Frumvarpið hefur því að geyma tillögu sem er nauðsynleg til að sporna afdráttarlaust við þessari skelfilegu þróun,“ segir í greinargerð sem fylgir frumvarpinu.

Lagt er til að sá sem brjóti gegn nýja ákvæðinu sæti ákæru eftir almennum reglum en ekki eftir kröfu þess sem misgert er við.