Halla Ólafsdóttir fór til Bolungarvíkur fyrir skömmu og ræddi við Jón Pál Hreinsson, í þættinum Sögum af landi á Rás 1, um fyrirhugðar breytingar á húsinu.
Umdeilt til margra ára
Húsið er illa farið og að sögn Jóns Páls hefur það verið bitbein í bænum í mörg ár og fólk haft ýmsar skoðanir á því. Staðsetningin var eitt af því sem kom illa við fólk. „Það skagar aðeins út í götuna. Og þótt gatan sé mjög breið, þá er staðsetningin á húsinu þannig að það var ekki hægt að gera gangbraut fram hjá því,“ segir hann og bætir við að húsið sé akkúrat á milli þjónustumiðstöðvar bæjarins og Hvíta hússins þar sem ýmis öldrunarþjónusta er til húsa.
Sjá einnig: Hús sem stendur út í götu ekki fært
„Þannig að æskilega tengingu milli þessara þjónustustofnana er ekki hægt að gera með gangbraut. Það er því að einhverjum hluta hægt að segja að þetta sé öryggismál en alls ekki rök til þess að rífa húsið,“ segir Jón Páll.
Skemmdarverk unnin í skjóli nætur
Sumarið 2014 voru unnin skemmdarverk á húsinu við Aðalstræti 16. Þá var grafa keyrð á húsið í skjóli nætur. Daginn eftir gaf sig fram maður sem viðurkenndi að hafa skipulagt skemmdarverkin. Minjastofnun Íslands og Bolungarvíkurkaupstaður kærðu manninn fyrir skemmdarverk á friðuðu húsi, Aðalstræti 16 í Bolungarvík, sem var byggt 1909 og því friðað frá 2010.