Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Umdeilt hús í Bolungarvík fær upplyftingu

Mynd: Bolungarvíkurkaupstaður / bolungarvik.is

Umdeilt hús í Bolungarvík fær upplyftingu

19.01.2021 - 13:50

Höfundar

Bolungarvíkurkaupstaður hefur látið mæla upp eitt umdeildasta húsið í bænum, Aðalstræti 16, og hanna fyrirhugaðar endurbætur á því. Húsið, sem er friðað sökum aldurs, var byggt á Látrum í Aðalvík 1909 og flutt til Bolungarvíkur um 1930, þar sem það var endurbyggt.

Halla Ólafsdóttir fór til Bolungarvíkur fyrir skömmu og ræddi við Jón Pál Hreinsson, í þættinum Sögum af landi á Rás 1, um fyrirhugðar breytingar á húsinu. 

Umdeilt til margra ára

Húsið er illa farið og að sögn Jóns Páls hefur það verið bitbein í bænum í mörg ár og fólk haft ýmsar skoðanir á því. Staðsetningin var eitt af því sem kom illa við fólk. „Það skagar aðeins út í götuna. Og þótt gatan sé mjög breið, þá er staðsetningin á húsinu þannig að það var ekki hægt að gera gangbraut fram hjá því,“ segir hann og bætir við að húsið sé akkúrat á milli þjónustumiðstöðvar bæjarins og Hvíta hússins þar sem ýmis öldrunarþjónusta er til húsa.

Sjá einnig: Hús sem stendur út í götu ekki fært

„Þannig að æskilega tengingu milli þessara þjónustustofnana er ekki hægt að gera með gangbraut. Það er því að einhverjum hluta hægt að segja að þetta sé öryggismál en alls ekki rök til þess að rífa húsið,“ segir Jón Páll. 

Skemmdarverk unnin í skjóli nætur

Sumarið 2014 voru unnin skemmdarverk á húsinu við Aðalstræti 16. Þá var grafa keyrð á húsið í skjóli nætur. Daginn eftir gaf sig fram maður sem viðurkenndi að hafa skipulagt skemmdarverkin. Minjastofnun Íslands og Bolungarvíkurkaupstaður kærðu manninn fyrir skemmdarverk á friðuðu húsi, Aðalstræti 16 í Bolungarvík, sem var byggt 1909 og því friðað frá 2010.

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Aðalstræti 16 eftir að gröfu var keyrt á húsið í skjóli nætur

Maðurinn var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir verknaðinn og til að greiða Bolungarvíkurkaupstað rúmlega milljón króna í bætur. 

Sjá einnig: Dæmdur fyrir að skemma friðað hús

Í niðurstöðu dómsins var litið til þess að maðurinn hafði ekki áður verið dæmdur til refsingar. Þá var ákærða talið til málsbóta að hann framdi verknaðinn af óeigingjörnum hvötum. Hann hafi talið sig vera að verja líf og heilsu aldraðra og veikra samborgara sinna og reyna að knýja fram breytingar á aðstæðum innan sveitarfélagsins sem hann taldi hættulegar. 

Sýna tækifærin sem felast í gömlum húsum

Jón Páll segir að húsið sé hvorki fallegt né reisulegt eins og það lítur út í dag. Enginn hefur búið þar í mörg ár og ástandið á því er slæmt en húsið á sér fallega sögu. Hann segir mikilvægt að skilja og virða tilfinningar þeirra sem sjá ekki tilganginn í varðveislu gamalla húsa sem virðast ónýt því ákveðin tækifæri felist í því þegar fólk segir að eitthvað sé ónýtt. 

Mynd með færslu
 Mynd: Bolungarvíkurkaupstaður - bolungarvik.is
Svona lítur Aðalstræti 16 út í dag. Spónarplötur voru settar til að lagfæra hornið þar sem keyrt var á húsið sumarið 2014.

„Þá er það okkar, sem höfum áhuga og vilja til þess að laga gömul hús, að segja af hverju þau eru ekki ónýt. Þess vegna lögðum við af stað í þetta verkefni. Fá fagfólk í að opna húsið, teikna það upp, sýna hvernig það getur litið út eftir að við værum búin að gera það upp,“ segir Jón Páll. „Það er svo mikilvægt að við sannfærum fólkið og við sýnum með þessu húsi hvað er hægt að gera. Af því þá er það auðveldara þegar við ætlum að taka næsta hús, og svo næsta hús. Þess vegna er þetta hús svo mikilvægt,“ segir hann. 

Fagfólk fengið til að koma með tillögur

Bolungarvíkurkaupstaður lét teikna húsið upp og fékk Einar Hlé Einarsson og Shruthi Basappa, arkitekta hjá Sei stúdíó, til þess. Þau hjónin hönnuðu einnig útsýnispallinn á Bolafjalli og voru í Bolungarvík í nokkrar vikur síðastliðið sumar til að fylgjast með þeim framkvæmdum. Í leiðinni tóku þau að sér að teikna Aðalstræti 16 upp og gera tillögur að endurbótum. Tillögurnar voru birtar á vefsíðu Bolungarvíkurkaupstaðar í desember. 

Mynd með færslu
 Mynd: Bolungarvíkurkaupstaður - bolungarvik.is
Svona gæti Aðalstræti 16 litið út samkvæmt tillögum arkítekta.

„Allir staðir eiga sína sögu" 

Sagt hefur verið að ekki séu mörg gömul hús sýnileg í Bolungarvík. Jón Páll segir að það sé alveg rétt enda sé engin þyrping til af gömlum húsum í kaupstaðnum. Húsin séu þó fleiri en fólk heldur. „Við erum nýbúin að vera til dæmis í aðalskipulagsvinnu, og hluti af því var að telja þessi hús sem voru orðin 100 ára. Þau voru miklu fleiri en ég hafði gert mér grein fyrir.“ 

Hann segir að húsið að Aðalstræti 16 hafi komið af stað mikilli umræðu um gömul hús í Bolungarvík. Því sé mikilvægt að vel takist til með endurbætur á því. Þannig væri hægt að sýna hvaða tækifæri felast í gömlum húsum. Aðalstræti 16 gæti orðið tenging milli gömlu húsanna í Bolungarvík. „Með einhvers konar starfsemi fyrir ferðamenn, eða félagsstarfi, eða staður þar sem fólk getur komið saman og tengt alla þess sögu sem við höfum hérna í Bolungarvík. Af því það eiga allir staðir sína sögu.“

Rætt var við Jón Pál Hreinsson í þættinum Sögum af landi á Rás 1. Viðtalið í heild sinni má finna í spilaranum hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Austurland

Vilja stöðva fyrirhugað niðurrif bragga á Eskifirði

Stjórnmál

Hörmuðu skemmdarverk í Bolungarvík

Dóms- og lögreglumál

Hringdi í bæjarstjóra og viðurkenndi sök

Innlent

Hús sem stendur út í götu ekki fært