Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Um 10. hvert barn á höfuðborgarsvæðinu fær ekki MMR

19.01.2021 - 13:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þátttaka í bólusetningum barna er mismikil eftir landsvæðum. Þrátt fyrir mislingafaraldur árið 2019 náði bólusetning við sjúkdómnum ekki tilskyldu viðmiði. Um 9% barna á höfuðborgarsvæðinu fá ekki MMR bólusetninguna.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sóttvarnalæknis um þátttöku í almennum bólusetningum hér á landi árið 2019. Þar segir að þátttaka í ung- og smábarnabólusetningum hafi verið góð og hafi hvergi verið undir 90%.

Höfuðborgarsvæðið og Suðurnesin eru þau landsvæði þar sem þátttaka í MMR bólusetningunni, þar sem bólusett er fyrir mislingum, hettusótt og rauðum hundum, er minnst en hún er 91% á höfuðborgarsvæðinu og 92% á Suðurnesjum. 

Um 93% þátttaka er í grunnbólusetningu þar sem bólusett er við fimm sjúkdómum og börn fá í þrígang fyrsta árið. Allar bólusetningar sem gerðar eru á landinu eru skráðar í miðlægan bólusetningargrunn sem er á ábyrgð sóttvarnalæknis. Tilgangur hans er að fylgjast með þátttöku í bólusetningum og meta hættuna á því að upp komi faraldrar. Þá er tilgangur bólusetningargrunnsins einnig að hafa upp á þeim sem ekki eru bólusettir.

Í skýrslunni segir að mikilvægt sé að réttur barna til bólusetninga sé kynntur á ýmsum tungumálum og að mikilvægt sé að þegar börn flytjist til landsins að farið sé yfir bólusetningar þeirra.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir