Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sögð hafa ætlað að koma tölvu Pelosi til Rússa

19.01.2021 - 06:39
epa08937706 An American flag is seen through a broken window at Union Station near the US Capitol building in Washington, DC, USA, 14 January 2021. As result of potential violent unrest, at least twenty thousand National Guard troops are being deployed in Washington to help secure the city  in the days leading up to next week’s inauguration of US President-elect Joe Biden.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríska alríkislögreglan FBI leitar nú konu sem er jafnvel grunuð um að hafa stolið fartölvu úr skrifstofu Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, í óeirðunum fyrr í mánuðinum. Fyrrverandi kærasti konunnar segir hana hafa ætlað að koma tölvunni í hendur Rússa.

FBI gaf út handtökuskipun á hendur konunni, Riley June WIlliams, á sunnudag. Þar er hún þó ekki sökuð um þjófnað, heldur aðeins fyrir ólöglega inngöngu í þinghúsið og óspektir. 

Einn aðstoðarmanna Pelosi staðfesti 8. janúar að fartölva hafi verið tekin úr skrifstofu hennar í óeirðunum. Hún hafi þó ekki innihaldið nein merkileg gögn, heldur aðeins notuð fyrir kynningar, hefur Guardian eftir honum. 

Mögulega langsótt kenning

Kenningin um að Williams hafi tekið tölvuna kann að virðast nokkuð langsótt. FBI segist hafa fengið símtal frá manni sem kvaðst fyrrverandi kærasti Williams. Sá segist hafa fengið að sjá myndband hjá vinkonu Williams, þar sem mátti sjá hana taka tölvu eða harðan disk úr skrifstofu þingforsetans. Þá hafi hún ætlað að koma tækinu í hendur vinar í Rússlandi, sem ætlaði svo að selja það til leyniþjónustunnar þar í landi. Það gekk ekki upp og hún er því áfram með tækið, eða búin að eyðileggja það. FBI rannsakar hvað er hæft í kenningunni.

Guardian hefur eftir móður Williams að dóttir hennar hafi fengið áhuga á pólitík Donalds Trumpforseta og reglulega farið inn á vefspjallþræði öfgafullra hægri manna. Williams fór á mótmælin 6. janúar með föður sínum, en hann segir þau hafa orðið viðskila. FBI telur hana hafa flúið eftir óeirðirnar. Móðir hennar sagði lögreglu að hún hafi pakkað niður í tösku, farið út og sagst ætla að láta sig hverfa í tvær vikur. Hún skipti um símanúmer og lokaði fjölda samfélagsvefsíðna sinna.