Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Skora á ráðherra að hafna kaupum á bújörð í Miðfirði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jóhannes Jónsson
Sauðfjárbændur í Vestur-Húnavatnssýslu skora á landbúnaðarráðherra að hafna kaupum félagsins Flaums ehf. á jörðinni Núpsdalstungu í Miðfirði. Þá áréttar sveitarstjórn Húnaþings vestra að jarðir eigi að selja til búsetu.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið óskaði eftir umsögn Húnaþings vestra um kaup Flaums á Núpsdalstungu. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins á félagið á sjötta þúsund hektara lands fyrir kaupin, en samkvæmt jarðalögum þarf að leita álits sveitarfélaga ef eign kaupanda fer yfir ákveðinn fjölda jarða og hektara.

Telja mikilvægt að ábúð sé á sem flestum jörðum

Sveitarstjórn Húnaþings vestra telur ekki æskilegt að margar jarðir safnist á fárra hendur og áréttar vilja sinn að þær séu seldar til búsetu. „Mikilvægt er að tryggja nýtingu á bújörðum og búsetu enda er slík nýting um allt sveitarfélagið lífæð samfélagsins. Sveitarstjórn vill leggja áherslu á að eign jarðar fylgja ekki aðeins réttindi til nýtingar hlunninda viðkomandi jarðar heldur einnig skyldur við jörðina og samfélagið allt. Það er eindreginn vilji sveitarstjórnar að allar jarðir í sveitarfélaginu verði nýttar með það að markmiði að styðja við fjölbreytta atvinnusköpun, eflingu byggðar og styrkingu búsetu. Þar af leiðandi er mikilvægt að ábúð sé á sem flestum jörðum,“ segir meðal annars í bókun sveitarstjórnar.

Vilja að ráðherra hafni kaupunum

Stjórn Félags sauðfjárbænda í sýslunni vill að ráðherra hafni kaupunum. „Við viljum náttúrulega, eins og aðrir sem búa til sveita, að það sé búið sem víðast því það þarf vissan fólksfjölda til þess að halda úti samfélagi,“ segir Ólafur Benediktsson, formaður félagsins. „Og svo hefur líka verið ákall um það síðustu ár varðandi þessa jarðasöfnun. Að aðilar séu ekki að safna jarðnæði vítt og breitt um landið.“

Segir vonda reynslu af jarðakaupum í sýslunni

Eigendur Núpsdalstungu eru fluttir af jörðinni og þar er ekki hefðbundinn búskapur í dag. Ólafur segir mjög mikilvægt að jörðina eignist fólk sem vilji eiga þar heima. Það sé vond reynsla af kaupum utanaðkomandi félaga á jörðum í Vestur-Húnavatnssýslu. „Að fenginni reynslu þá erum við kannski hrædd um að það verði ekki búseta þarna. Við höfum áhyggjur af því já. Og maður veltir því fyrir sér í þessu samhengi, hvað hefur einn aðili að gera með 5 til 10.000 hektara af landi, vítt og breitt um landið. Ég skil það ekki.“