Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Segja að verið sé að ríkisvæða alla fjölmiðla

19.01.2021 - 20:58
Mynd: RÚV / RÚV
Menntamálaráðherra fagnar þverpólitískri sátt sem hún telur að sé að myndast um fjölmiðlafrumvarp hennar. Fáir stjórnarþingmenn tóku þó þátt í umræðunni á Alþingi í dag. Stjórnarandstaðan segir að verið sé að ríkisvæða alla fjölmiðla og að taka verði á stöðu RÚV um leið.

Fæðing frumvarps menntamálaráðherra um fjölmiðla hefur verið erfið. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins settu fyrirvara við málið þegar það var afgreitt úr þingflokknum, og tóku ekki þátt í umræðunni í dag. Lilja Alfreðsdóttir mælti fyrir frumvarpinu, sem snýst um stuðning við einkarekna fjölmiðla, í byrjun desember. Umræðunni var frestað og fram haldið á Alþingi í dag. Þingmenn Miðflokksins gagnrýndu það styrkjafyrirkomulag sem felist í frumvarpinu, þar á meðal Þorsteinn Sæmundsson.

„Með þessu frumvarpi hér er verið að ríkisvæða alla fjölmiðla á Íslandi. Það er verið að ríkisvæða alla fjölmiðla á Íslandi og það er verið að gera alla fjölmiðla, þ.e. þá sem að njóta styrkja samkvæmt frumvarpinu, háða ríkinu,“ segir Þorsteinn.

Og fleiri lýstu sambærilegum áhyggjum. Nokkrir þingmenn benda á að óhjákvæmilega þurfi að ræða Ríkisútvarpið samhliða þessu frumvarpi.

„Fíllinn í stofunni ef svo má segja er Ríkisútvarpið á þessum markaði öllum, sem hefur yfirburðastöðu vegna fyrst útvarpsgjaldsins og þeirra rétt um fimm milljarða sem stofnunin fær í gegnum það og síðan, eins og það er stundum orðað, þegar stofnunin ryksugar upp auglýsingamarkaðinn,“ segir Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins. 

Frá gærdeginum eru fréttir Stöðvar 2 einungis í boði fyrir áskrifendur stöðvarinnar og segir Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar það miður.

„Ég tel þá fréttastofu vera mjög mikilvæga. Ég tel mjög mikilvægt að við höfum tvær að minnsta kosti sjónvarpsfréttastöðvar,“ segir Helga Vala.

Menntamálaráðherra fagnaði umræðunni sem henni fannst góð og lagði áherslu á að málið yrði klárað. 

„Auðvitað fagna því að það sé að myndast nokkurs konar þverpólitísk sátt um málið og ég heyri það á flestum þeim kjörnu fulltrúum sem hafa hér tekið til máls,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir.