Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sautján andlát eru rakin til hópsmitsins á Landakoti

COVID-ástand á Landakoti
 Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso - Ljósmynd
Sautján andlát eru nú rakin til hópsmitsins á Landakoti. Flestir sem létust vegna þess létust á Landspítala, en einnig eru andlát á Suðurlandi rakin til smitsins.

Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar þingmanns Miðflokksins um fjölda sýkinga og andláta af völdum kórónuveirunnar.

Í svarinu kemur fram að enginn undir 31 árs aldri og enginn yfir 85 ára hefur farið í öndunarvél á Landspítala það sem af er kórónuveirufaraldrinum. Algengasti aldur þeirra sem hafa lagst inn á sjúkrahús með COVID-19 er 60-69 ára, en 68 manns í þeim aldurshópi hafa lagst inn vegna sjúkdómsins. Næst algengasti aldurinn er 70-79 þar sem 65 hafa lagst inn með COVID-19 og eitt barn á aldrinum 0-9 ára hefur lagst inn á sjúkrahús með sjúkdóminn. Tveir á aldursbilinu 10-19 ára hafa lagst inn á sjúkrahús með COVID-19.

14 létust á Landspítala í kjölfar hópsmits á Landakoti og andlát þriggja á hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka eru rakin til hópsýkingarinnar á Landakoti.

Einnig var spurt um smit á öðrum sjúkrastofnunum. Á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík létust tveir einstaklingar  og einn lést á Landspítala eftir smit á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ.

Nú hafa 25 lokið sérstakri endurhæfingarmeðferð á Reykjalundi fyrir þá sem glíma við langvarandi einkenni vegna COVID-19. 29 eru í slíkri meðferð og í byrjun árs voru 30 á biðlista eftir henni. Reykjalundur áætlar að 4% þeirra sem hafa greinst með COVID-19 þurfi á endurhæfingu að halda, sem núna eru um 120 manns. 

Fréttin hefur verið uppfærð.