Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lokað um Ólafsfjarðarmúla og Siglufjarðarvegur ófær

19.01.2021 - 09:56
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Vegurinn um Ólafsfjarðarmúla, milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar, er enn lokaður vegna snjóflóðahættu. Þá er Siglufjarðarvegur ófær.

Veginum um Ólafsfjarðarmúla var lokað í gærkvöld eftir að þar féllu tvö snjóflóð og fór annað þeirra yfir veginn.  

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er óbreytt veður í Múlanum, aðstæður þær sömu og í gærkvöld og áfram snjóflóðahætta. Fylgst er með ástandinu og verður ekkert átt við snjómokstur fyrr en aðstæður batna.

Siglufjarðarvegur um Almenninga er ófær og þar er óvissustig vegna snjóflóðahættu. Beðið verður með mokstur þar fram eftir degi. Einnig er ófært um Lágheiði. Allar leiðir í og úr Fjallabyggð eru því ófærar sem stendur.

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV