Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Lofar styttri bið og árangursríkari skimun

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu lofar því að biðtími eftir niðurstöðu úr leghálsskimun styttist og skimunin verði árangursríkari en áður. Konur sem bíða niðurstöðu úr leghálsskimun fái svar innan mánaðar. 

Verið að pakka sýnunum

Sjúkratryggingar Íslands kláruðu á dögunum samning við danska rannsóknastofu um greiningu 2000 leghálssýna sem tekin voru á leitarstöð Krabbameinsfélagsins í nóvember og desember á síðasta ári. 
Skimunin færðist yfir til heilsugæslunnar um áramótin og kassarnir með sýnunum 2000 fylgdu með. Fjöldi kvenna hefur beðið í óvissu í á þriðja mánuð. Óskar Reykdalsson, segir að sýnin verði send til Danmerkur á næstu dögum. „Það er bara verið að pakka þeim niður núna, það eru send svona þúsund sýni í einu, þannig að ég á von á því að það verði innan tveggja, þriggja daga.“ 

Elstu sýnin og áhættusýnin verða í forgangi en Óskar segir að allar konurnar sem beðið hafa frá því í nóvember og desember ættu að vera komnar með svar innan mánaðar.  

 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
Sýni hafa undanfarnar vikur verið tekin af ljósmæðrum á heilsugæslustöðvum.

Langtímasamningur um öll hin sýnin

Eftir sitja þá ný sýni sem hafa verið tekin á heilsugæslustöðvum frá því yfirfærslan tók gildi í byrjun janúar. Óskar segir að langtímasamningur um greiningu á þeim, á sömu rannsóknastofu ytra, sé á lokametrunum. „Þetta er bara dagaspursmál, við erum með samning sem við erum bara að lesa yfir, sem þeir eru búnir að samþykkja.“

Nýtt tölvukerfi fyrir skimunina er ekki heldur tilbúið en Óskar segir það ekki tefja fyrir því að sýni séu tekin eða greind. 

Tveggja til þriggja mánaða bið ekki góð

Óskar segir ekki gott að konur þurfi að bíða mánuðum saman eftir niðurstöðum. „En þetta er svona svipað og verið hefur en það hefur auðvitað verið óásættanlegt að þurfa að bíða eftir niðurstöðum og best að gera þetta sem fyrst. En það má ekki gleyma því að þetta er skimun, þetta er yfirleitt ekki fólk með einkenni, þannig að í venjulegum tilvikum skipta einhverjar fáar vikur til eða frá ekki mjög miklu máli en við leggjum áherslu á það að þetta sé unnið hratt og vel og innan tveggja, þriggja vikna verði þetta komið í algjörlega eðlilegt horf.“

Veirupróf í stað frumurannsókna

Bið eftir niðurstöðu hefur oft verið löng áður, hlaupið á mánuðum, Óskar segir að í nýja kerfinu verði hún í mesta lagi fjórar vikur. Þá verði gæði skimunarinnar meiri en markmið heilbrigðisráðherra með yfirfærslunni er að hún færist nær alþjóðlegum skimunarleiðbeiningum.  Í stað frumuskoðunar verður almenna reglan að gera veirupróf, sem kannar hvort HPV-veiran finnst í leghálsi, frumurannsóknir verða aðeins gerðar hjá konum undir þrítugu og öðrum konum ef veiran greinist hjá þeim. Óskar segir þessa leið öruggari en þá sem hingað til hefur verið farin, og í meira samræmi við fyrirkomulagið í löndunum í kringum okkur. „Þetta er öruggara, það er næmari rannsókn sem tryggir gæði rannsóknarinnar betur.“ Næmni veiruprófanna, sem eru greind vélrænt, sé talin vera um 90% en næmni frumuskoðunar um 60%, þar er mannsaugað greiningartækið.

Ekki nógu mörg sýni til að fá vottun

Ástæðan fyrir því að heilsugæslan valdi að semja við danska stofu en ekki Landspítalann er að sögn Óskars sú að rannsóknarstofa fái ekki vottun nema hún greini yfir 25 þúsund sýni á ári, svo mörg verði sýnin héðan ekki í nýja kerfinu. Á sömu stofu verða greind sýni frá konum í Kaupmannahöfn, á Skáni, í Færeyjum og Grænlandi. 

Ómögulegt að greina fram á síðasta dag

 

Mynd með færslu
 Mynd:
Halla Þorvaldsdóttir

 

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, segir að ómögulegt hefði verið að greina sýni á leitarstöð Krabbameinsfélagsins fram á síðasta dag, enda hefði ekki verið hægt að ljúka úrvinnslunni. Við hafi svo bæst ýmis verkefni sem fylgdu því að loka rannsóknarstofunni, en starfsfólk þar hætti störfum um áramótin. Hún segir að í ljósi þessa hafi verið gert samkomulag við heilbrigðisráðuneytið um að leitarstöðin myndi taka sýni fram til 30. nóvember, en að sýni sem tekin yrðu frá 6. nóvember og fram til þrítugasta, myndu færast til heilsugæslunnar. 

Hefði verið betra ef samningar lægju fyrir

Halla segir að það blasi við, af stöðunni sem uppi er, að verkefnið hafi ekki verið nægilega undirbúið. Óskar segir að það hefði kannski þurft aðeins lengri tíma. 

Þetta rof sem varð á þjónustunni líturðu á þetta sem eðlilegan hlut í tengslum við svona yfirfærslu eða var þetta einhvers konar yfirsjón?

„Ég held þetta sé ekki nein yfirsjón, þetta tók bara aðeins lengri tíma en við hefðum viljað, við hefðum auðvitað viljað gera þetta tveim, þrem vikum fyrr. “

Hann bjóst við einhverjum sýnum frá Krabbameinsfélaginu en ekki 2000 stykkjum. En hefði ekki biðin styst aðeins ef samningarnir við dönsku rannsóknarstofuna hefðu verið tilbúnir strax í janúar? „Jú, væntanlega,“ segir Óskar.