Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Leggja til heildstæða athugun á starfsemi Arnarholts

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Borgarstjórn ætlar að beina því formlega til forsætisráðherra að gerð verði heildstæð athugun á vistheimilinu Arnarholti og öðrum sambærilegum heimilum. Tillaga þess efnis verður lögð fram á fundi borgarstjórnar í dag. Borgarstjóri segir að aðalatriðið sé að málið verði upplýst og að réttar ályktanir verði dregnar.

Starfsfólk á vistheimilinu Arnarholti lýsti ómannúðlegri meðferð á heimilisfólki í ítarlegum vitnaleiðslum fyrir tæpri hálfri öld. Ekki var greint frá því sem fram kom í vitnaleiðslunum fyrr en í fréttum RÚV í nóvember síðastliðnum.

Eftir umfjöllunina hafa bæði borgarstjóri og forsætisráðherra sagt að ráðast verði í rannsókn á aðbúnaði í Arnarholti, og öðrum sambærilegum heimilum, og hefur slík rannsókn verið í undirbúningi. Tillaga um framhald málsins verður lögð fram á fundi borgarstjórnar í dag. 

Eindreginn stuðningur

„Það hefur verið breið samstaða um það innan borgarstjórnar að það sé fyllsta ástæða til þess að skoða málefni Arnarholts ofan í kjölinn, og hugsanlega fleiri sambærilegra heimila,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. „Minnisblað borgarlögmanns dregur hins vegar fram að til þess að það verði gert almennilega, þá þarf sérstakar lagaheimildir sem Alþingi er eitt í aðstöðu til þess að veita. Þannig að að höfðu samráði við forsætisráðherra, þá er málið þar nú til skoðunar. Og borgarstjórn vill bara lýsa yfir eindregnum stuðningi sínum við að þessi mál verði skoðuð í kjölinn og bjóða fram liðsinni borgarinnar í hverju því sem þarf í því sambandi.“

Út á hvað gengur þá tillagan í dag?

„Hún gengur út á það að beina því til forsætisráðherra að gerð verði úttekt á Arnarholti og eftir atvikum öðrum sambærilegum heimilum.“

Málið tefjist ekki

Að ykkar mati, hvort á þá rannsóknin að fara fram á vegum forsætisráðuneytisins eða borgarinnar?

„Það þarf allavega atbeina Alþingis og við yrðum alveg sátt við það og myndum treysta því að ríkið og forsætisráðuneytið myndu hafa forgöngu um það, eins og varðandi vistheimilin áður. Meginatriðið er að þetta verði vel gert og af virðingu fyrir því sem þarna gerðist, þannig að málið verði upplýst og réttar ályktanir af því dregnar.“

Og verði þessi tillaga samþykkt í dag, þá komast þessi mál betur á hreint?

„Já við vonumst til þess og ég hef raunar þegar gert forsætisráðherra grein fyrir því hver ég telji að hugur borgarstjórnar sé í þessu, þannig að málið myndi ekki tefjast í undirbúningi innan ráðuneytisins,“ segir Dagur.