Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ísland með stærstan eignarhlut Evrópuríkja í bankakerfi

19.01.2021 - 10:30
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Fjármálaráðherra segir að ríkið eigi ekki að standa í bankarekstri eða vera leiðandi í bankarekstri hér á landi. Fallið verði frá áformum um að selja eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka, eða þeim frestað, ef ekki fæst viðunandi verð fyrir hann. Stjórnarandstaðan gagnrýnir tímasetninguna og segir óvissu allt of mikla á tímum heimsfaraldurs.

Fundir hófust á ný á Alþingi í gær að loknu jólahléi og viðbúið er að annasamir mánuðir séu framundan á Alþingi vegna þingkosninga sem hafa verið boðaðar í lok september. Stóra málið á þingfundi gærdagsins var munnleg skýrsla fjármálaráðherra um sölu á fjórðungshlut ríkisins í Íslandsbanka.

„Ríkið á ekki að standa í bankarekstri ríkið á ekki að vera leiðandi í bankarekstri á Íslandi ríkið á ekki að ráða yfir tveimur af þremur kerfislega mikilvægum bönkum,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í gær. „Íslenska ríkið er með langstærsta eignarhlut allra ríkja í Evrópu og þótt víðar væri leitað í sínum fjármálakerfum þetta eru einföldu rökin.“

Þannig sé ágreiningurinn hugmyndafræðilegur. Bjarni segir að ef ekki fáist ásættanlegt verð fyrir þennan hlut þá verði áformunum frestað eða fallið frá þeim. Þeir þingmenn sem gagnrýna söluna hvað mest segja tímasetninguna ekki rétta og að of mikil óvissa sé í kortunum nú á tímum heimsfaraldurs.

„Nú er hættan sú að Íslandsbanki verði einkavæddur án þess að menn sjái til lands með það hvernig fjármálakerfi við viljum byggja upp hér á Íslandi og hvernig við viljum nýta það einstaka tækifæri sem að í þessari stöðu felst,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra sagði að rökin fyrir mikilvægi sölunnar nú væru ekki skýr, ekki lægi fyrir af hverju lægi á að selja núna og spurði hvort allur asinn væri til þess að hafa selt eða hafið söluferli hans fyrir kosningar í haust.