Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Heilbrigðisráðherra vill afglæpavæða neysluskammta

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Á þingmálaskrá heilbrigðisráðherra er frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkni­efni. Með frumvarpinu er stefnt að því að heimila vörslu og meðferð á takmörkuðu magni af ávana- og fíkniefnum.

Í samráðsgátt stjórnvalda var í dag birt áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 (afglæpavæðing neysluskammta). Samkvæmt gildandi löggjöf er varsla hvers konar skammta af ávana- og fíkniefnum óheimil og refsiverð. Ef frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra nær fram að ganga verður breyting þar á. 

Í skjali sem birt er í samráðsgáttinni segir að helstu breytingar séu þessar:

  • Varsla á neysluskömmtun verði ekki refsiverð. 
  • Ráðherra sé gert með reglugerð að kveða á um hvaða magn ávana- og fíkniefna og ávana- og fíknilyfja teljist til eigin nota miðað við neysluskammta.
  • Heimild lögreglu til upptöku efna nái ekki til þeirra efna sem séu í vörslu einstaklinga yfir 18 ára aldri þegar magn efnanna er innan þess sem telst getur til eigin nota.

Fíkniefnaneytendur sjúklingar fremur en afbrotamenn

Í samráðsgáttinni segir að á undanförnum áratugum hafi orðið vart við viðhorfsbreytingu í vímuefnamálum á heimsvísu og efasemdir fari vaxandi um gagnsemi baráttunnar gegn vímuefnum. Frekar eigi að líta á fíkniefnaneytendur sem sjúklinga en afbrotamenn. „Áhrifa þessara viðhorfsbreytinga hefur einnig orðið vart hér á landi og undanfarin ár hefur afglæpavæðing neysluskammta verið áberandi í samfélagsumræðu. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er þess getið að leggja skuli áherslu á forvarnir og lýðheilsu. Mikilvægt er að leggja áherslu á skaðaminnkun og að draga úr neyslu- og fíknivanda.“ Umsagnafrestur er til loka janúar og verða umsagnir birtar um leið og þær berast. 

Þetta er í fyrsta sinn sem ráðherra leggur til afglæpavæðingu neysluskammta en í október 2019 lögðu nokkrir þingmenn fram sambærilegt frumvarp. Flutningsmenn voru Halldóra Mogensen, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Logi Einarsson, Helga Vala Helgadóttir, Andrés Ingi Jónsson, Ólafur Þór Gunnarsson, Þorsteinn Víglundsson, Jón Steindór Valdimarsson, Guðmundur Ingi Kristinsson. Það náði ekki fram að ganga en margir stjórnarþingmenn gerðu grein fyrir atkvæði sínu og sögðu markmið frumvarpsins göfugt og mikilvæg en að frumvarpið þurfi frekari vinnu áður en það gæti orðið að lögum.