
Hefur áhyggjur af tillögum frá almenningi um kjötbann
Borgarstjórn tók í dag til umræðu aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum árin 2021-2025. Egill nefndi að í viðauka sem fylgdi áætluninni væri meðal annars talað um að banna umferð einkabílsins í miðbænum og að takmarka kjötneyslu með sektum.
Viðaukinn sem Egill vísar í er samantekt á innsendum tillögum en við gerð skýrslunnar var almenningi boðið að senda inn hugmyndir að aðgerðum á vefsvæði borgarinnar.
„Fólk hefur raunverulegar áhyggjur af því að þetta sé eitthvað sem Reykjavíkurborg hyggist beita sér fyrir. Og maður hefur sjálfur áhyggjur af því að slíkar hugmyndir séu að ryðja sér til rúms meðal meirihlutaflokkanna í borgarstjórn. Og því langar mig að spyrja hvort þetta sé til raunverulegrar umræðu, að það eigi að beita sér fyrir takmörkun á kjötneyslu með svona afgerandi hætti eins og fram kemur í viðaukum skýrslunnar. Og er á döfinni að banna umferð í ákveðnum póstnúmerum?,“ sagði Egill Þór á borgarstjórnarfundinum.
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna og formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs, svaraði Agli á þann veg að ítarefnið með skýrslunni væri efni sem hefði borist í gegnum samráðsgátt.