Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Evrópuríki skera upp herör gegn mansali frá Víetnam

19.01.2021 - 06:13
Police officers secure a building in Essen, Germany, Wednesday, May 22, 2019. Police in western Germany are raiding premises linked to an Iraqi gang suspected of involvement in human trafficking, drug dealing, illegal arms trade and forging identity papers.  (Stephan Witte/dpa via AP)
Frá aðgerðum lögreglu í Essen í morgun. Mynd: ASSOCIATED PRESS - DPA
Sam-evrópskri lögregluaðgerð verður hrundið af stað á þessu ári til þess að skera upp herör gegn mansali á fólki frá Víetnam. Fólkið er lokkað til Evrópu með loforði um störf. Það þarf að greiða jafnvirði allt að þriggja milljóna króna á mann til þess að vera smyglað til Evrópu, yfirleitt í gegnum Kína eða Rússland.

Vefmiðillinn The Local hefur eftir Carsten Moritz, yfirmanni mansalsdeildar sambandsríkislögreglunnar í Þýskalandi, að stór glæpasamtök með starfsemi um alla Evrópu standi á bakvið mansal frá Víetnam. 

Auk Þýskalands taka lögregludeildir frá Póllandi, Bretlandi, Hollandi, Austurríki, Sviss, Tékklandi og Belgíu þátt í aðgerðinni auk löggæslustofnunar Evrópusambandsins, Europol. Moritz segir Lichtenberg-hverfið í Austur-Berlín miðpunkt aðgerðarinnar. Þar er Dong Xuan Center, einn stærsti asíski markaðurinn í Þýaksalandi. Þýska lögreglan handtók sex manns í fyrra vegna gruns um að hafa tekið þátt í að smygla 155 Víetnömum til Þýskalands. 

Hættulegt ferðalag

Ferðalag frá Víetnam til Evrópu getur reynst stórhættulegt. Fólkinu er búinn þröngur kostur, og oft lífshættulegur. Árið 2019 fundust 39 Víetnamar látnir í kældum vöruflutningabíl í Bretlandi, skömmu eftir að ók undir Ermarsundið. Höfuðpaur mansalshringsins sem kom fólkinu fyrir í kældu farangursrýminu var handtekinn í janúar í fyrra og dæmdur í Lundúnum fyrir 39 manndráp.

Hátt í tvö hundruð þúsund Víetnamar eru með skráða búsetu í Þýskalandi samkvæmt opinberum tölum. Margir þeirra komu til Austur-Þýskalands á sínum tíma sem svokallaðir gesta-verkamenn. Þeir ílengdust svo eftir að Berlínarmúrinn féll. Þá eiga margir rætur sínar að rekja til flóttamanna sem komu til Vestur-Þýskalands undir lok Víetnam-stríðsins.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV