Vefmiðillinn The Local hefur eftir Carsten Moritz, yfirmanni mansalsdeildar sambandsríkislögreglunnar í Þýskalandi, að stór glæpasamtök með starfsemi um alla Evrópu standi á bakvið mansal frá Víetnam.
Auk Þýskalands taka lögregludeildir frá Póllandi, Bretlandi, Hollandi, Austurríki, Sviss, Tékklandi og Belgíu þátt í aðgerðinni auk löggæslustofnunar Evrópusambandsins, Europol. Moritz segir Lichtenberg-hverfið í Austur-Berlín miðpunkt aðgerðarinnar. Þar er Dong Xuan Center, einn stærsti asíski markaðurinn í Þýaksalandi. Þýska lögreglan handtók sex manns í fyrra vegna gruns um að hafa tekið þátt í að smygla 155 Víetnömum til Þýskalands.
Hættulegt ferðalag
Ferðalag frá Víetnam til Evrópu getur reynst stórhættulegt. Fólkinu er búinn þröngur kostur, og oft lífshættulegur. Árið 2019 fundust 39 Víetnamar látnir í kældum vöruflutningabíl í Bretlandi, skömmu eftir að ók undir Ermarsundið. Höfuðpaur mansalshringsins sem kom fólkinu fyrir í kældu farangursrýminu var handtekinn í janúar í fyrra og dæmdur í Lundúnum fyrir 39 manndráp.
Hátt í tvö hundruð þúsund Víetnamar eru með skráða búsetu í Þýskalandi samkvæmt opinberum tölum. Margir þeirra komu til Austur-Þýskalands á sínum tíma sem svokallaðir gesta-verkamenn. Þeir ílengdust svo eftir að Berlínarmúrinn féll. Þá eiga margir rætur sínar að rekja til flóttamanna sem komu til Vestur-Þýskalands undir lok Víetnam-stríðsins.