Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Erum ekki að hætta með kjöt í mötuneytum skólanna“

19.01.2021 - 19:57
Mynd: Óðinn Svan Óðinsson / RÚV
Hjúkrunarfræðingur á Akureyri segir bæinn fara gegn tilmælum landlæknis með því að bjóða börnum í leik- og grunnskóla upp á unnar kjötvörur og rautt kjöt í miklu magni. Bærinn hafnar því en ætlar að koma á reglubundnu eftirliti.

Mælt með að takmarka mettaða fitu, salt og sykur

Á vef landlæknis segir að takmarka skuli unnar matvörur, mettaða fitu, sykur og salt í grunnskólum landsins. Eyrún Gísladóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Akureyrarbæ segir tilmælin algerlega virt að vettugi í mötuneytum bæjarins. 

„Okkur foreldrum er kennt í byrjun í ungbarnaverndinni, það er farið yfir næringuna, hvað þau eigi að vera að fá og svo byrja börnin hjá dagforeldrum eða á leikskólum og þar er þetta allt einhvern veginn skotið niður,“ segir Eyrún.

Sjá einnig: „Ég vil að Akureyrarbær taki út allar unnar kjötvörur”

„Þetta er mín trú“

Eyrún sem á sjálf barn á leikskóla kveðst hafa komið að lokuðum dyrum þegar hún óskaði eftir breytingum á matseðli dóttir sinnar. Hún segir mikilvægt að tekið sé tillit til allra. 

„Einstaklingur sem er múslimatrúar, hann má sleppa við svínakjöt í leik- og grunnskólum út af trú. Þetta er okkar trú. Þetta er mín trú að við eigum ekki að borða dýraafurðir, að við eigum ekki að neyta dýraafurða, að það sé betra fyrir okkar heilbrigði og umhverfið.“

Eyrún sendi fræðsluráði formlegt erindi vegna málsins. Ráðið tók málið fyrir og bókaði sérstaklega um það í fundargerð sem birt var í dag. 

Ætla bæta við reglubundinni úttekt á matseðlum

„Fræðsluráð tók þetta erindi fyrir já og bókaði um það að þörf væri á reglubundinni úttekt á matseðlum og gæði matar í skólum bæjarins og við viljum koma því á.  Við erum ekki að hætta með kjöt í mötuneytum skólanna, við ætlum að halda áfram markaðri vegferð að bjóða uppá fjölbreytta fæðuflokka og íslenskan hefðbundinn heimilismat ,“ segir Ingibjörg Isaksen, formaður fræðsluráðs.