„Ég taldi mig vera umburðarlyndan og víðsýnan“

Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV

„Ég taldi mig vera umburðarlyndan og víðsýnan“

19.01.2021 - 14:21

Höfundar

„Það er mikilvægt fyrir þeim að skilja að að allir lifi lífi sínu eins og þau eru, hvort sem það er hann, hún eða hán,“ segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari sem hefur lært mikið af börnum sínum fjórum. Þau hafa meðal annars kennt honum að fordómaleysi og umburðarlyndi er ekki það sama; að endurnýta og laga í stað þess að kaupa nýtt; að gefa nýrri tónlist, tækni og list séns og að hætta að borða kjöt fyrir umhverfið.

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari er aftur fluttur í Fossvoginn þar sem hann ólst upp. Hann á fjögur börn með Ágústu Jónsdóttur, elsta dóttirin er þrítug, svo eiga þau aðra sem er tvítug, sautján ára dreng og annan sem er að verða tíu ára. Aðalsteinn var gestur Felix Bergssonar í Fram og til baka þar sem hann valdi fimm hluti sem börnin hafa kennt honum í gegnum tíðina í dagskrárliðnum Fimmunni. „Mér datt í hug að gera fimm fyrrverandi kærustur en svo eru þær ekki einu sinni fimm,“ segir hann og hlær og heldur sig því við lærdóminn sem föðurhlutverkið hefur fært honum.

Stórhættulegt að vera miðaldra og þykjast vita best

Hann segir að mikilvægasta skynfærið í starfi ríkissáttasemjara sé eyrun, hann leggi sig alltaf fram við að hlusta og reyna að skilja allar hliðar í hverju máli. Innan veggja heimilisins hefur hann lagt sig fram við að hlusta líka og læra auðmjúkur af börnunum sem stundum vita betur. „Þegar menn eru að skríða yfir fimmtugt geta þeir orðið pínulítið staðnaðir. Að hafa öll svörin og vita allt best, það getur verið stórhættuleg staða,“ segir hinn fróðleiksfúsi Aðalsteinn. „Mér finnst það vera ein af stóru áskorunum okkar kynslóðar að hlusta á krakkana og fylgja þeim eftir. Leyfa þeim að leiða okkur áfram og uppfræða.“

Blastar enn Duran Duran einn í bílnum

Á menntaskólaárunum hlustaði Aðalsteinn helst á Cure, Suede og Duran Duran og þessar hljómsveitir fylgja honum enn þó hann hafi í seinni tíð kynnt sér aðra tónlist. „En ég hlusta á það einn í bílnum, blasta og syng með,“ segir hann. Börnin hans hafa hins vegar kennt honum að meta nýjungar og opna hugann fyrir nýrri tónlist, kvikmyndum, myndlist og tækni svo eitthvað sé nefnt.

Í tæknimálum standa afkvæmin foreldrum venjulega framar og hafa haft mikla þolinmæði fyrir að kenna þeim á hinar ýmsu nýjungar. „Ég heyrði eitt sinn talað um okkur sem núllkynslóðina en það er fólk sem kaupir sér ný tæki og þegar þú lítur á þau blikkar á þeim núll, en þú kannt ekki að stilla þau,“ segir hann glettinn.

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Unga kynslóðin leiðir loftslagsbaráttuna og þær eldri eiga að hlusta og fylgja samkvæmt Aðalsteini.

Engin framþróun í heiminum ef börn væru ekki óþekk

Á sinn hátt hafa börnin einnig kennt honum gildi óþekktar, það er að segja að ögra viðteknum gildum og reglum og þrýsta á rammann sem samfélagið hefur sniðið okkur. Enda eru helstu fyrirmyndir barna í bókmenntasögunni margar mikilvægir prakkarar, samanber Lína langsokkur, Emil í Kattholti og Harry Potter galdrastrákur og uppreisnarseggur. „Þetta eru dálitlir óþekktarormar og börnin hafa fært mér ýmsar áskoranir í gegnum tíðina,“ segir hann. En hann þakkar fyrir að þau ögri viðteknum reglum og fari stundum á skjön við reglur til að koma í veg fyrir stöðnun.

„Börn eiga að vera óþekk. Ef þau væru það ekki, þau fylgdu fyrirmælum og gerðu nákvæmlega það sem fyrir þau er lagt þá væri engin framþróun,“ segir hann. „Unga fólkið hefur alltaf verið í framvarðarsveit breytinga og þau hafa þrýst á þann ramma sem var fyrir hendi.“

Hann nefnir meðal annars hvernig ungt fólk hefur leitt baráttuna gegn loftslagsbreytingum og hamfarahlýnun. „Mér finnst á vissan hátt að þegar við horfum á stærstu áskoranir sem blasa við mannkyni núna, þá hafi mannkyn á vissan hátt sagt pass. Það eru gríðarlegar áskoranir sem börnin okkar og næstu kynslóðir þurfa að takast á við og við þurfum að hlusta á þau,“ segir hann.

Að þessu leyti hafi börnin staðið sig vel í að uppfræða föður sinn og hann lært mikið af þeim. Yngri kynslóðir séu einnig meðvitaðri en þær eldri um mannréttindamál að miklu leyti.

Mynd með færslu
 Mynd: Hinsegin dagar í Reykjavík
Tólf ára kenndi sonurinn föður sínum að kynhneigðir væru að minnsta kosti ellefu, ekki fjórar.

Áhersla á að skilja og njóta fjölbreytileikans

Fjölskyldan bjó í sjö ár í Genf þar sem börnin gengu í alþjóðlegan skóla. Í bekknum hjá drengnum hans voru börn frá 26 mismunandi löndum og Aðalsteinn lærði mikið af reynslu sonarins á því að vera í svo fjölmenningarlegu umhverfi og fylgjast með honum þroskast í því. „Ég taldi mig vera gríðarlega umburðarlyndan og víðsýnan,“ segir Aðalsteinn sem fljótt áttaði sig á að það sem hann kallaði sjálfur fordómaleysi var á vissan hátt frekar umburðarlyndi, „fyrir því að fólk væri alls konar og með mismunandi hugmyndir um lífið. En hjá þeim gekk það lengra.“

Það var engin þolinmæði fyrir fordómum í þessum skóla, engin þolinmæði fyrir einelti og stríðni og allir meðvitaðir um mikilvægi þess að allir sem einn fengju að blómstra á sínum forsendum. „Það var lögð gríðarleg áhersla á að skilja, meðtaka, læra af og njóta fjölbreytileikans.“

Mikilvægt að hann, hún og hán lifi lífi sínu eins og þau eru

Drengurinn hans, þá tólf ára, var að gera skólaverkefni sem snerist um að taka viðtal við einhvern í fjölskyldunni. Faðir hans situr fyrir svörum og er meðal annars spurður hve margar kynhneigðir séu til. „Ég segi: Ja, það er gagnkynhneigð og svo eru hommar, lesbíur og tvíkynhneigðir. Fjórar.“

Sonurinn var ekki par sáttur við fáfræðina. „Hann bara: pabbi, ertu að segja fjórar? Nei, það eru að minnsta kosti ellefu,“ svaraði sonurinn þá. Faðir hans að vanda þakkaði fyrir enn eitt tækifærið til að læra lexíu af afkvæmunum. „Það er svo mikilvægt fyrir þeim að skilja að að allir lifi lífi sínu eins og þau eru, hvort sem það er hann, hún eða hán. Það er athyglisvert að hlusta og læra af þeirra hugsanaferli og hugmyndum,“ segir hann.

epa07508673 Flames on the roof of the Notre-Dame Cathedral in Paris, France, 15 April 2019. A fire started in the late afternoon in one of the most visited monuments of the French capital.  EPA-EFE/IAN LANGSDON
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fyrst það var hægt að safna fyrir endurbyggingu Notre Dame er margt hægt að gera fyrir umhverfið ef viljinn er fyrir hendi.

Leist í fyrstu illa á að dóttirin yrði vegan

Börnin hafa einnig kennt honum að læra að meta vegan mataræði. Fyrir þremur árum tilkynnti dóttir hans, þá sautján ára, að hún ætlaði sér að verða vegan. Honum fannst hugmyndin hræðileg og spyr um hæl hvort hún þyrfti ekki að fá prótein og vítamín og fleira sem hún myndi greinilega fara á mis við.

En dóttir hans var undirbúin undir slíkar spurningar og sagði honum að hún gæti fengið öll næringarefni sem hún þyrfti úr grænkerafæði. Hún benti honum auk þess á mikilvægi aukinnar meðvitundar um mataræði þegar kemur að umhverfisvernd. „Að gríðarlegur hluti af kolvetnisspori mannkyns er út af landbúnaði, ég tala ekki um þar sem regnskógum er eytt og það dregur úr líffræðilegum fjölbreytileika til að búa til fóður fyrir nautgripi og svínarækt.“

Fjölskyldan ákvað að taka þátt í þessu með henni og elda einungis vegan fæði á heimilinu. „Litli drengurinn var reyndar undanskilinn enda glotti hann og sagði: Pabbi, I love the taste of blood,“ rifjar Aðalsteinn upp og hlær.

Í dag hafa mál hins vegar þróast þannig að meira að segja sá yngsti hefur sagt skilið við blóðið að mestu og borðar frekar vegan fæðið því honum finnst það betra. Aðalsteinn segir að áskorunin hafi verið skemmtileg síðustu þrjú árin og í dag borðar hann bara vegan fæði á heimilinu en leyfir sér ost og fisk utan heimilisins. Ágústa og tvö barnanna eru hins vegar alveg vegan og elsta dóttir þeirra er grænmetisæta.

„Ég er ekki jafn fullkominn og börnin mín“

Fjórða lexían var að það þarf ekki alltaf að kaupa nýtt. Aðalsteinn ákvað að gleðja elstu dóttir sína og kaupa fyrir hana spánnýtt reiðhjól en áttaði sig fljótlega á því að dóttur hans leist ekki eins vel á fyrirætlanirnar og hann hafði haldið. Aðspurð hvað væri að trufla hana svaraði hún: „Þú þarft ekki að kaupa nýtt hjólk handa mér, getum við ekki bara keypt gott notað hjól?“ Það var gert og síðan hefur öll fjölskyldan lagt sig fram við að kaupa frekar notað og nýta betur það sem er til á heimilinu, laga það sem er bilað.

„Nú er ég ekki jafn fullkominn og börnin mín, langt í frá, en ég held að það eina sem dóttir mín kaupir nýtt séu tölvur og tækni en öll föt og allt sem hún notar er keypt notað,“ segir hann.

Enginn almennilegur miðaldra karl nema í spandex með bumbu á hjóli

„Við erum að nota mikið meira og eyða meiru en er sjálfbært. Það kemur að skuldadögum, við getum ekki haldið svona áfram,“ segir Aðalsteinn. „Við verðum að endurnýta og nota minna nýtt, og búa til hringrás þar sem við notum sömu hlutina aftur og kaupum minna.“

Síðasta hjólið sem var keypt inn á heimilið var fyrir fjölskylduföðurinn sjálfan sem er mikill hjólagarpur. „Það er enginn almennilegur miðaldra karl öðruvísi en að hann sé í spandex með smá bumbu á racer. Ég er ekkert undanskilinn,“ segir hann sem keypti nýja hjólið að sjálfsögðu notað.

Við gátum safnað fyrir Notre Dame, við getum safnað fyrir umhverfið

Fimmta atriðið sem hann nefnir er að börnin hafa kennt honum að horfa lengra fram í tímann en margir hafa tilhneigingu til, hugsa ekki bara um líðandi stund eða næsta mánuð heldur fleiri ár fram á við. Velta því fyrir sér hvernig það sem gerist í dag hefur afleiðingar í stóra samhenginu.

Hann ítrekar að í umhverfismálum hafi hans kynslóð að miklu leyti sofnað á verðinum og að það sé mikilvægt að vakna. „Við þurfum að taka okkur á og ekki senda þessa áskorun að öllu leyti yfir á næstu kynslóð. Áskorunin er að standa vörð um lífið sjálft, að vinna gegn mengun andrúmsloftsins og stöðva súrnun sjávar sem getur haft gríðarleg áhrif, ekki síst á Íslandi, að hreinsa upp höfin,“ segir hann. „Tryggja líffræðilegan fjölbreytileika svo jörðin sé áfram lífvænleg og sú paradís sem hún getur verið og á að vera fyrir okkur öll.“

Það er ekkert vafamál, að sögn Aðalsteins, að krakkarnir og unga fólkið hafi meiri skilning á því en þau sem eldri eru hve áríðandi þessi áskorun er. Hann nefnir meðal annars viðbrögð heimsbyggðarinnar þegar eldur kviknaði í Notre Dame kirkjunni í apríl 2019. „Þetta var alveg hrikalegt, þetta minnismerki sem við þekkjum öll,“ segir Aðalsteinn. Þá tóku ýmsir höndum saman og hrintu af stað söfnun til að hægt væri að fjármagna endurbyggingu á kirkjunni. Þá hafi orðið ljóst hvað hægt er að gera ef fólk hættir að vera eins skammsýnt. „Þá söfnuðust jafn miklir peningar og búist er við að kosti að hreinsa upp allt plast í úthöfunum. Af hverju erum við ekki búin að því?“ spyr hann. Það sé ljóst að það séu lausnir og leiðir en að okkur skorti ábyrgð. „Þarna eru krakkarnir og við eigum að hlusta.“

Felix Bergsson ræddi við Aðalstein Leifsson í Fram og til baka á Rás 2. Hér er hægt að hlusta á þáttinn í heild sinni í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Hve margir geta sagt að æskudraumurinn hafi ræst?“

Bókmenntir

„Við höfum öll verið Jaja dingdong-gæinn“