Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Birgðir safnast upp í landbúnaði vegna COVID-19

Mynd með færslu
 Mynd: LK - RÚV
Birgðir safnast upp í landbúnaði hér á landi og víðar vegna faraldursins og Íslendingar verða að bregðast við því, segir Guðný Helga Björnsdóttir, kúabóndi á Bessastöðum í Hrútafirði. Framleiðslan hafi tekið mið af því að hingað kom um ein milljón ferðamanna en langan tíma tekur að hægja á framleiðslunni. Tíma taki að bregðast við og hægja á framleiðslu. 

Framleiðsla á kjöti og mjólkurafurðum jókst mjög mikið hér á landi með fjölgun ferðamanna, segir Guðný Helga. „En svo kemur þetta COVID-ástand upp þar sem allt dettur niður. Það er ekki bara að ferðamenn hætta að koma heldur eru líka allar veislur og samkundur þar sem menn eru að gera aðeins betur við sig, að það dettur niður. Engar fermingaveislur eða neitt þar sem flæðir allt af rjómatertum og stórsteikum. Þetta er ekki bara á Íslandi sem þetta er að gerast. Þetta er um allan heim þannig að það er að safnast upp birgðir út um allt. Þjóðirnar eru að bregðast við því og Íslendingar verða að gera það líka.“ 

Misauðvelt sé fyrir bændur að draga úr framleiðslu. Kjúklinga- og svínabændur og eggjaframleiðendur eiga auðveldara með að bregðast við ástandinu því framleiðslutíminn hjá þeim er styttri heldur en til dæmis hjá nautgripabændum.  
 
„Það tekur þrjú ár að búa til eina nautasteik þannig að þú skrúfar ekki fyrir það einn tveir og tíu. Og það er eins í mjólkurframleiðslunni ef við ætlum að minnka mjólkurframleiðsluna þá þurfum við að afsetja kýrnar en þær fá ekki pláss í sláturhúsinu af því það selst ekkert kjöt þannig að þær safnast upp í fjósunum sko.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV