Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

ADHD-lyf útiloka fólk ekki lengur frá lögreglunámi

19.01.2021 - 08:47
Mynd: RÚV / RÚV
Notkun á ADHD-lyfjum samkvæmt læknisráði útilokar ekki lengur fólk frá námi í lögreglufræði eftir að breyting var gerð á inntökuskilyrðum í náminu. Formaður ADHD samtakanna segir að þetta sé mikið framfaraskref. Þetta skilyrði hafi útilokað nokkra frá náminu á hverju ári.

Elín H. Hinriksdóttir formaður ADHD-samtakanna var gestur Morgunútvarps Rásar tvö í morgun. Hún sagði þar að fyrir um ári hefði verið leitað til samtakanna með erindi þessa efnis. 

„Við fórum strax að kanna málið, höfðum samband við Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar og erum búin að vera að vinna í þessu máli með þeim síðastliðið ár,“ segir Elín.

Hún segir að gera hafi þurft miklar breytingar á inntökuferlinu. Áður hafi úrtökupróf og læknisskoðun verið í lok fyrstu námsannar. Hafi komið í ljós þá að viðkomandi notaði ADHD-lyf, hafi það útilokað fólk frá áframhaldandi námi.

„Þeir segja mér að þetta séu yfirleitt svona 4-6 tilfelli á ári.  Þær breytingar sem við náðum fram núna er að ADHD og lyfjataka er ekki útilokandi þáttur í náminu. Að auki fara þessi úrtökupróf fram strax. Ef það kemur upp í læknisskoðuninni að þú tekur lyf við ADHD, þá er það metið á einstaklingsgrunni. Einstaklingur með ADHD sem á erfitt með virkni í daglegu lífi og öðlast þessa færni þegar hann tekur lyf er ekkert síðri en ég og þú.“