Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Viðhaldsverkefni tekin út úr hugmyndasamkeppni

Mynd: Reykjavíkurborg / Reykjavíkurborg
Yfir eitt þúsund hugmyndir hafa borist í hugmyndasöfnun Reykjavíkur, Hverfið mitt. Nú er kosið um hugmyndir á tveggja ára fresti, meira fjármagn er í framkvæmdasjóðinum og því stærri hugmyndir framkvæmanlegar. Eiríkur Búi Halldórsson, verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg, segir að viðhaldsverkefnum hafi verið fundinn annar farvegur innan borgarkerfisins.  

Eiríkur var ánægður með undirtektirnar þegar rætt var við hann í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hægt er að hlusta á brot úr viðtalinu í spilaranum hér fyrir ofan.  

„Það er metfjöldi notenda og heimsókna á síðuna ásamt því sem við erum komin yfir þúsund hugmyndir og það eru enn þrír dagar til stefnu. Það liggur við að sláum líka met í fjölda hugmynda sem er gaman og gott.“ 

Kosið um hugmyndirnar í haust

Þegar hugmyndasöfnuninni lýkur er farið yfir hvaða hugmyndir eru framkvæmanlegar, segir Eiríkur.  Íbúaráð hvers hverfis stilli upp þeim hugmyndum sem kosið verði um og kosið um þær í september eða október. Meira fjármagn sé til skiptana nú þegar kosið er á tveggja ára fresti. 

„Þetta eru 850 milljónir yfir öll hverfin en það er fjórðungur sem skiptist jafnt og þrír fjórðu sem skiptist eftir íbúafjölda. Breiðholt er með flestar hugmyndir og er líka með mest fjármagn,“ segir Eiríkur. „Með þessu er bæði meiri möguleikar á stærri hugmyndum og að fleiri hugmyndir verði að möguleika.“

Eiríkur segir að tekið hafi verið tillit til gagnrýnisradda um að viðhaldsverkefni ættu ekki heima í hugmyndasamkeppninni. Fólk geti lagt til úrbætur með því að senda inn ábendingu á borgina og þau verkefni dreifist í borgarkerfinu. „Við höfum tekið viðhalds- og öryggisverkefni út þar sem það er náttúrlega ekki sami hattur á nýframkvæmdum og nýjum fótboltavelli og að laga göngustíginn við hliðina á.“ 
 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV