Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stuðningur vegna COVID-19 tæplega 60 milljarðar króna

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heildarfjárhæð þess stuðnings sem stjórnvöld hafa veitt fyrirtækjum og einstaklingum vegna efnahagsáhrifa kórónuveirufaraldursins er tæplega 60 milljarðar króna. 3.106 rekstraraðilar hafa fengið stuðning og 37.017 einstaklingar hafa fengið hlutabætur. Þetta kemur fram í tilraunatölfræði Hagstofu Íslands.

Af milljörðunum sextíu nam beinn fjárhagsstuðningur um 38,4 milljörðum króna, frestun skattgreiðslna um 9,7 milljörðum króna og veittar lánaábyrgðir um 11,8 milljörðum króna.

Mest í hlutabætur og uppsagnastyrki

Langstærsti útgjaldaliður ríkisins er greiðsla hlutabóta, 24,5 milljarðar króna. Í apríl voru hátt í 33 þúsund manns á hlutabótum en í desember voru það 5.450 manns. 

Næststærsti liðurinn er vegna greiðslu launakostnaðar í uppsagnarfresti, 11,7 milljarðar króna. Skattinum hafa borist 1.441 umsóknir um stuðning vegna launakostnaðar í uppsagnarfresti frá 395 atvinnurekendum.

Mynd með færslu
 Mynd: Hagstofa Íslands

Frá því í mars hafa 35,5 milljarðar króna runnið til 3.106 rekstraraðila, ýmist í formi beinna styrkja, frestunar skattgreiðslna eða veittra lánaábyrgða. 708 fyrirtæki nýttu fleiri en eitt úrræði.

1.200 hafa fengið lokunarstyrki, sem eru ætlaðir þeim fyrirtækjum sem hafa þurft að stöðva starfsemi eða loka, samkvæmt reglugerðum um sóttvarnaaðgerðir. Alls hafa 23 rekstraraðilar sótt um greiðsluskjól, sem var ætlað þeim fyrirtækjum sem áttu í verulegum rekstrarerfiðleikum vegna faraldursins.