Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Skynsamlegt að hefja sölu vegna minni óvissu

18.01.2021 - 11:56
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Samsett mynd
Skynsamlegt er að hefja sölu á hlut í Íslandsbanka því mun minni óvissa er núna heldur en var fyrir ári þegar hætt var við sölu á bankanum segir, Konráð Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Drífa Snædal, forseti ASÍ segir að óvissan sé ennþá of mikil.

Rætt verður um sölu á hlut í Íslandsbanka á Alþingi í dag. Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að Alþingi hafi ekki nægar upplýsingar til að fjalla um sölu bankanna. Ársreikningur bankans liggi ekki fyrir. Alþingi eigi að skila áliti sínu á sölunni þremur vikum áður en ársreikningur liggi fyrir fyrir síðasta ár, „sem maður myndi halda að væri svolítið mikilvægt gagn að hafa við svona ákvarðanatöku.“

Auk þess hafi sölunni verið frestað fyrir ári út af óvissu. „Við erum ennþá í óvissuástandi þannig að maður kemst alltaf að þeirri niðurstöðu að það sem liggur á núna sé vegna kosninga í september þannig að þetta er þá pólitísk ákvörðun.“ 

Konráð Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, tekur ekki undir þetta og bendir á að uppgjör banka komi á ársfjórðungs fresti. 
„Ég held að það sé engan vegin hægt að bera saman óvissuástandið núna og í mars síðasliðnum. Í mars sl þá vissum við ekkert.“ 

Þá hafi enginn vitað hvaða áhrif faraldurinn hefði á efnahagslífið, hversu lengi hann myndi vara eða hvenær bóluefni yrði tilbúið. „Núna vitum við meira um allt þetta. Við vitum að á þessu ári verður búið að bólusetja stóran hluta Íslendinga, vonandi fyrir sumarið.“   Seinkun á bólusetningu í því samhengi skipti ekki máli þegar sala á bankanum er annars vegar.
 
„Alþingi þarf að vanda til verka og velta fyrir sér hvernig eigi að gera þetta en ég held að það sé engin spurning að það sé skynsamlegt að hefja þessa vegferð.“