
Samsung-erfingi dæmdur í fangelsi
Lee er sagður stýra fyrirtækinu í raun, þrátt fyrir að vera titlaður varaformaður. Hann var ákærður í febrúar 2017 fyrir að greiða andvirði um þriggja og hálfs milljarðs króna í mútur, og hafa gefið loforð fyrir meiru. Hann var dæmdur í fimm ára fangelsi árið 2017 fyrir að greiða Choi Soon-sil, góðri vinkonu fyrrverandi forseta Suður-Kóreu, jafnvirði hundruð milljóna í mútugreiðslur. Park Geun-hye, fyrrverandi forseti, var ákærð fyrir embættisglöp vegna þáttar síns í hneykslinu. Lee mútaði þeim Park og Choi til þess að tryggja stuðning ríkisstjórnarinnar við að Lee tæki við af föður sínum sem formaður Samsung. Dómur yfir Park var nýverið staðfestur í hæstarétti Suður-Kóreu.
Samsung er stærsti farsíma- og örflöguframleiðandi heims. Stuðningsmenn Lees og aðrir stjórnendur stórfyrirtækja vonuðust til þess að dómstólar sýndu honum miskunn, og bentu á hlutverk hans við að reisa efnahag Suður-Kóreu við eftir áhrif kórónuveirufaraldursins.