Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Samsung-erfingi dæmdur í fangelsi

18.01.2021 - 06:24
epa08945208 Lee Jae-yong, vice chairman of Samsung Group, arrives to attend a sentencing hearing over his bribery scandal the Seoul High Court in Seoul, South Korea, 18 January 2021. 
In August 2019, the Supreme Court ordered the appellate court to review its suspended jail sentence for Lee over bribing a confidante of jailed President Park Geun-hye. According to media reports, Lee Jae-yong was sentenced to two years and six months in prison.  EPA-EFE/KIM CHUL-SOO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Lee Jae-yong, varaformaður Samsung í Suður-Kóreu og sá sem er sagður raunverulegur stjórnandi fyrirtækisins, var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi í morgun. Honum er gefið að sök að hafa tekið þátt í umfangsmikilli spillingu. Hann er dæmdur fyrir mútugreiðslur og fjárdrátt. Hann var strax settur í fangaklefa að sögn Yonhap fréttastofunnar í Suður-Kóreu. 

Lee er sagður stýra fyrirtækinu í raun, þrátt fyrir að vera titlaður varaformaður. Hann var ákærður í febrúar 2017 fyrir að greiða andvirði um þriggja og hálfs milljarðs króna í mútur, og hafa gefið loforð fyrir meiru. Hann var dæmdur í fimm ára fangelsi árið 2017 fyrir að greiða Choi Soon-sil, góðri vinkonu fyrrverandi forseta Suður-Kóreu, jafnvirði hundruð milljóna í mútugreiðslur. Park Geun-hye, fyrrverandi forseti, var ákærð fyrir embættisglöp vegna þáttar síns í hneykslinu. Lee mútaði þeim Park og Choi til þess að tryggja stuðning ríkisstjórnarinnar við að Lee tæki við af föður sínum sem formaður Samsung. Dómur yfir Park var nýverið staðfestur í hæstarétti Suður-Kóreu.

Samsung er stærsti farsíma- og örflöguframleiðandi heims. Stuðningsmenn Lees og aðrir stjórnendur stórfyrirtækja vonuðust til þess að dómstólar sýndu honum miskunn, og bentu á hlutverk hans við að reisa efnahag Suður-Kóreu við eftir áhrif kórónuveirufaraldursins.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV