Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Óvæntur 20% tollur á ávaxtasafa í sölu á Íslandi

18.01.2021 - 15:13
Erlent · Innlent · Brexit · Innflutningur · Verslun
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels.com
Fyrirtækið Íslensk ameríska (ÍSAM) þarf nú að greiða 20% toll af vinsælum ávaxtasafa sem það flytur til landsins. Ástæðan er útganga Breta úr Evrópusambandinu. Samtök verslunar og þjónustu hafa heyrt af fleiri svipuðum dæmum.

ÍSAM flytur inn ávaxtasafa sem á uppruna sinn í Bretlandi. Samningur ÍSAM um kaup á safanum er hins vegar við fyrirtæki á Norðurlöndum. Vörurnar eru framleiddar víða um Evrópu og safnað saman í Svíþjóð þaðan sem safarnir koma til landsins. Brexit gekk í gegn að fullu 1. janúar og nú er svo komið að greiða þarf 20% toll af þeim vörum frá fyrirtækinu sem eru framleiddar í Bretlandi. Ef ÍSAM myndi hins vegar flytja inn vöruna beint frá Bretlandi þá þyrfti fyrirtækið ekki að greiða þennan 20% toll vegna þess að Ísland og Bretland hafa gert með sér bráðabirgðafríverslunarsamning. 

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Hermann Stefánsson er forstjóri ÍSAM.

„Við höfðum ekki hugmyndaflug í þetta. Áttuðum okkur ekki á því að við þyrftum mögulega að greiða toll, við vorum að hugsa auka skjöl og skriffinnsku,“ segir Hermann Stefánsson, forstjóri ÍSAM. Eins og gefur að skilja hefur óvæntur 20% tollur mikil áhrif. „Við erum í viðræðum við birgja um lausnir á þessu þannig að varan detti ekki út af markaði,“ segir Hermann. 

Hann segir ekki einfalt að búa þannig um hnútana að varan verði flutt inn beint frá Bretlandi. Sum fyrirtæki séu einfaldlega framleiðslufyrirtæki en ekki söluaðilar. Þá sé magnið sem flutt er hingað af þessum tilteknu vörum ekki mikið í stóra samhenginu og flutningar þannig óhagkvæmari. Auk þess þarf að taka tillit til umboðssamninga og dreifingasamninga. Staðan er því nokkuð flókin. „Við frestuðum því að panta á meðan við erum að átta okkur á þessu. Við erum í viðræðum um lausnir og ef þetta leysist ekki þá verður vöntun á vörunni, hún dettur út eða hækkar í verði,“ segir Hermann. 

Vita um fleiri dæmi

Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum verslunar og þjónustu er vitað um fleiri dæmi af þessu tagi. Vandamálið snýst um reglur um uppruna vöru sem séu rauði þráðurinn í gegnum alla alþjóðlega viðskiptasamninga. 

Það vakti athygli á dögunum þegar skinkusamlokur vörubílstjóra voru gerðar upptækar á landamærum Hollands. Það er vegna þess að eftir 1. janúar telst Bretland sem þriðja ríki þegar kemur að innflutning á matvælum. Og innflutningur á matvælum frá þriðju ríkjum til einkaneyslu er óheimill. „Hér er átt við matvæli (og fæðubótarefni) sem innihalda kjöt, mjólk (mjólkurvörur, mjólkurprótein) og egg. Óheimilt er að flytja inn til einkaneyslu matvæli sem innihalda dýraafurðir frá þriðju ríkjum, þ.e. löndum utan EES,“ segir á heimasíðu Matvælastofnunar. Á þessu eru þó nokkrar undantekningar sem má sjá hér.