Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Óttast innanbúðarárás þjóðvarðliða á innsetningardag

18.01.2021 - 06:38
epa08944980 Members of the National Guard leave the perimeter of the Washington State Capitol while providing extra security in Olympia, Washington, USA, 17 January 2021. State capitols throughout the USA were on heightened alert following the riots at United States Capitol Building on 06 January 2021 in Washington, DC.  EPA-EFE/STEPHEN BRASHEAR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríska alríkislögreglan FBI verður að rannsaka bakgrunn allra 25 þúsund þjóðvarðliðanna sem eru væntanlegir til Washington til að gæta öryggis Joe Biden þegar hann sver embættiseið sinn. Varnarmálayfirvöld í Bandaríkjunum óttast mögulega innanbúðarárás á Biden sjálfan, eða annan hátt settan gest við innsetningarathöfnina.

AP fréttastofan hefur eftir hernaðarmálaráðherranum Ryan McCarthy að embættismenn séu meðvitaðir um mögulega ógn innan raða þjóðvarðliðsins. Hann hefur beðið liðsforingja um að fylgjast vel með í aðdraganda innsetningarinnar. Hingað til hafa þeir þó ekki orðið varir við neitt grunsamlegt, og rannsókn alríkislögreglunnar hefur ekki leitt neitt í ljós.

McCarthy segir að farið sé ítarlega yfir hvern einasta þjóðavarðliða, og foringjar fái einnig þjálfun í því að greina mögulega ógn innan síns liðs. 

Tvö handtekin um helgina

Fréttastofa bandaríska almenningsútvarpsins NPR greindi frá því í gær að lögregla hafi þurft að handtaka tvo vegfarendur í höfuðborginni Washington. Gríðarleg öryggisgæsla er í borginni vegna innsetningarathafnarinnar.  Snemma í gærmorgun var 22 ára karlmaaður frá Virginíu handtekinn. Hann var með skotvopn, þrjú stór skothylki og 37 skot. 

Á laugardaginn var kona á sjötugsaldri frá Connecticut handtekin. Hún reyndi að villa á sér heimildir og þóttist vera lögreglumaður og væri í starfsliði forsetans. Hún var handtekin fyrir að villa á sér heimildir og neita að hlýða fyrirmælum lögreglu.