
Óttast innanbúðarárás þjóðvarðliða á innsetningardag
AP fréttastofan hefur eftir hernaðarmálaráðherranum Ryan McCarthy að embættismenn séu meðvitaðir um mögulega ógn innan raða þjóðvarðliðsins. Hann hefur beðið liðsforingja um að fylgjast vel með í aðdraganda innsetningarinnar. Hingað til hafa þeir þó ekki orðið varir við neitt grunsamlegt, og rannsókn alríkislögreglunnar hefur ekki leitt neitt í ljós.
McCarthy segir að farið sé ítarlega yfir hvern einasta þjóðavarðliða, og foringjar fái einnig þjálfun í því að greina mögulega ógn innan síns liðs.
Tvö handtekin um helgina
Fréttastofa bandaríska almenningsútvarpsins NPR greindi frá því í gær að lögregla hafi þurft að handtaka tvo vegfarendur í höfuðborginni Washington. Gríðarleg öryggisgæsla er í borginni vegna innsetningarathafnarinnar. Snemma í gærmorgun var 22 ára karlmaaður frá Virginíu handtekinn. Hann var með skotvopn, þrjú stór skothylki og 37 skot.
Á laugardaginn var kona á sjötugsaldri frá Connecticut handtekin. Hún reyndi að villa á sér heimildir og þóttist vera lögreglumaður og væri í starfsliði forsetans. Hún var handtekin fyrir að villa á sér heimildir og neita að hlýða fyrirmælum lögreglu.