Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lítill eldur við þinghúsið í DC og gæsla hert til muna

18.01.2021 - 16:00
epaselect epa08946050 Members of the United States military arrive ahead of an inauguration rehearsal at the Capitol, in Washington, DC, USA, 18 January 2021. Biden will be sworn-in as the 46th president on 20 January.  EPA-EFE/WILL OLIVER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Svæðinu í kring um þinghúsið í Washington-borg og húsinu sjálfu var lokað seinnipartinn í dag vegna elds sem kviknaði út frá gaskútum í tjaldi þar sem heimilislaust fólk heldur til. Neyðartilkynning hljómaði í hátölurum frá lögreglu og hernum og æfingu vegna vígsluathafnar Joe Biden, sem verður á miðvikudag, hefur verið hætt. Þegar búið var að slökkva eldinn var hertu viðbúnaðarstigi aflétt.

Gríðarmikil gæsla er á svæðinu og þúsundir þjóðvarðliða hafa verið ræstir út. Fólk í þinghúsinu og byggingum á svæðinu hefur verið beðið um að halda sig frá gluggum og dyrum. CNN segir að um lítinn eld hafi verið að ræða. Slökkviliðið í höfuðborginni segir á Twitter að tilkynnt hafi verið um eld í tjaldi í nágrenni þinghússins og hann hafi nú verið slökktur og enginn meiðst. Þetta útskýri reykinn sem margir vegfarendur hafi séð og ekki sé talin hætta á ferðum. Frétt BBC má lesa hér.  

Uppfært kl 16:20

Löggæsluyfirvöld í DC hafa gefið út yfirlýsingu að öryggisráðstafanir hafi verið hertar í algjöru varúðarskyni, enda séu þau við öllu búin. Engin hætta hafi stafað af eldinum.