Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Karitas Harpa - On the Verge

Mynd: Gissur Guðjónsson / On the Verge

Karitas Harpa - On the Verge

18.01.2021 - 17:40

Höfundar

On the Verge er fyrsta sólóplata tónlistar- og fjölmiðlakonunnar Karitasar Hörpu og hennar fyrsta í fullri lengd. Platan er að hennar sögn persónulegt ferðalag þar sem skiptist á skin og skúrir eins og í lífinu sjálfu.

Karitas Harpa er fædd og að mestu uppalin á Íslandi, hún bjó þó fyrstu fjögur árin í Bandaríkjunum svo enska varð henni strax sem annað móðurmál. Tónlist var áhugamál þar til hún tók þátt í seinni seríu The Voice, Ísland 2016-2017 en þá fyrst varð tónlistin að möguleika til atvinnusköpunar. Þá tók við tími ýmissa tækifæra og hún fór að finna sig sem tónlistarkonu. Hún prófaði að vinna með ólíkum tónlistarmönnum, gaf meðal annars út þrjú frumsamin lög í samstarfi við Daða Frey; söng og gaf út tvö lög eftir Pálma Ragnar Ásgeirsson; tók þátt í Söngvakeppninni; og hitaði upp fyrir Jessie J. í Laugardalshöll svo eitthvað sé nefnt. Karitas hefur einnig spreytt sig í útvarpi og sjónvarpi þar sem hún var fastur álitsgjafi tvær þáttaraðir af Eurovision-þættinum Alla leið árin 2019-2020.

Hvað tónlistina varðar segist Karitas finna sig best í sköpunarferlinu sjálfu, frá hugmynd til útgáfu, og hefur samið sín eigin lög og texta. Hún gefið út þrjár smáskífur sem ómað hafa í útvörpum landsmanna en þau má heyra á plötu hennar On the Verge.

On the Verge er hennar fyrsta stóra plata og er eins konar yfirlit og persónulegt uppgjör við síðustu ár í hennar lífi. Í flestum lögum verksins, vinnur hún ásamt upptökustjóranum Zöe Ruth Erwin að lokafrágangi. Flestir textar eru byggðir á einhvers konar persónulegri reynsu, tilfinningum og lærdómi tónlistarkonunnar af samskiptum við fólk og tilfinningalegum hæðum og lægðum sem fylgja þeim. Lögin eru alls konar, svona svoldið eins og ég, segir Karitas Harpa og bætir við að hún eigi mjög erfitt með að setja sjálfa sig í einhvers konar fast form eða kassa. Hún er stundum sjúklega hress og kát en aðra daga vil hún sitja ein með kaffibolla og velta fyrir sér tilgangi lífsins sem þjakaður listamaður. Karitas fannst frekar erfitt að ætla að ákvarða einhvers konar eitt þema fyrir plötuna og ákvað bara að leyfa tónlistinni að vera eins og hún kemur til hennar en útilokar ekki konseptplötu í framtíðinni.

On the Verge fyrsta sólóplata Karitasar Hörpu í fullri lengd er plata vikunnar á Rás 2 og verður spiluð í heild sinni eftir 10-fréttir í kvöld og er aðgengileg í spilara.

Mynd með færslu
 Mynd: Karitas Harpa - On the Verge
Karitas Harpa - On the Verge