Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hjálpa tækjum að skilja íslensku í lestrarkeppni

18.01.2021 - 22:22
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Þátttakendur í lestrarkeppni grunnskólanna, sem sett var í dag, ætla að hjálpa tölvum og tækjum að skilja íslensku betur. Forseti Íslands segir að framtíð íslenskrar tungu velti á að hún eigi sinn sess í stafrænum heimi.

Næstu vikuna keppa grunnskólanemendur um hvaða skóli les flestar setningar inn í raddgagnasafnið Samróm, sem verður nýtt til að þróa máltæknibúnað svo hægt verði að eiga í samskiptum við tölvur og tæki á íslensku. Nú þegar hafa rúmlega 320 þúsund setningar verið lesnar inn á vefsíðu Samróms en ljóst er að þeim fjölgar mikið með aðkomu barnanna.

„Framtíð íslenskrar tungu veltur á því að hún eigi líka sinn sess í stafrænum heimi. Þannig að það er mjög brýnt. Grunnskólakrakkarnir ætla að ganga á undan, og tala á undan, með góðu fordæmi en við hin getum líka lagt okkar að mörkum með því að tala. Íslendingum hefur nú lengi reynst það auðvelt að tala og mala og því ekki að gera það í þágu málsins sjálfs,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

„Sem Íslendingur af erlendum uppruna finnst mér líka mikilvægt að undirstrika að tækin þurfa að skilja okkur sem tala íslensku með hreim. Það er mikilvægt fyrir fólk sem er ekki með íslensku sem móðurmál að fara inn á samrómur.is líka og lesa inn setningar,“ segir Eliza Reid, forsetafrú.

Og krakkarnir sem riðu á vaðið í dag voru sammála um mikilvægi keppninnar. „Við erum að hjálpa tölvunum og símum að skilja íslenskuna betur,“ sagði Sæunn Svava Óskarsdóttir, nemandi í Fellaskóla. Þá sagðist hún búast við því að það myndi ganga mjög vel.