Hífði sig upp um 250 metra í hjólastól

epa08296747 Commercial and residential buildings stand in Tung Chung, Hong Kong, China, 15 March 2020 (issued 16 March 2020). Tung Chung is located on Lantau Island, a few kilometres away from Hong Kong International Airport.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Hífði sig upp um 250 metra í hjólastól

18.01.2021 - 04:56

Höfundar

Hinn 37 ára gamli Lai Chi-wai komst í metabækur í Hong Kong um helgina þegar hann hífði sig upp um 250 metra. Lai var bundinn fastur í hjólastólinn sinn, sem hann ferðast alla jafna um á. Það tók hann tíu klukkustundir að komast metrana 250.

Lai hífði sig upp kaðal meðfram skýjakljúfnum Nina Tower í Hong Kong. Turninn er 300 metra hár, en Lai lét það vera að fara alla leið af ótta við öryggi sitt. Þrekvirkið vann hann í þágu mænuskaddaðra, og tókst honum að safna yfir fimm milljónum hong-kong dala áheitum, jafnvirði um 87 milljóna króna.

Lai hefur farið ferða sinna í hjólastól eftir hann lamaðist fyrir neðan mitti í bílslysi fyrir tíu árum. Áður en hann slasaðist var hann mjög frambærilegur klettaklifursmaður. Hann varð meðal annars fjórum sinnum Asíumeistari í klettaklifri, og náði hæst áttunda sæti á heimslistanum.

Eftir slysið leitaði hann aftur í klifrið með því að festa trissur við hjólastólinn. Fyrir fimm árum togaði hann sig upp Lion Rock fjallið í Hong Kong, sem er tæplega 500 metra hátt.