Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hefði haldið áfram ef Eiður Smári hefði ekki hætt

Mynd: RÚV / RÚV

Hefði haldið áfram ef Eiður Smári hefði ekki hætt

18.01.2021 - 07:52
Atli Guðnason á frábæran feril að baki með FH. Hann spilaði 378 leiki fyrir liðið og skoraði 93 mörk. Atli er margfaldur Íslands- og bikarmeistari auk þess að vera markahæsti íslenski leikmaðurinn í Evrópukeppnum. Það stefndi þó lengi vel í að Atli myndi ekki leggja fótbolta fyrir sig og hann var nokkrum sinnum nálægt því að hætta áður en ferillinn fór á flug.

Atli spilaði sinn fyrsta leik með meistaraflokki FH árið 2004 og spilaði því með liðinu í 16 ár áður en hann ákvað að leggja skóna á hilluna. „Ég held að þetta sé ágætis tímapunktur. 36 ára og búinn að vera í þrjú ár í hálfgerðu aukahlutverki,” segir Atli sem hefði þó getað hugsað sér að taka slaginn eitt ár í viðbót ef Eiður Smári Guðjohnsen hefði haldið áfram að þjálfa liðið. „Ég var svolítið spenntur að vera með Eið Smára áfram. Ég hugsa að ég hefði haldið áfram ef hann hefði verið. En svona þegar hann steig frá borði þá fannst mér bara ágætt að segja þetta gott,” segir Atli sem lofar Eið sem þjálfara. „Hann er bestur Íslendinga í fótbolta í sögunni. Ef maður getur ekki lært af honum þá getur maður af engum lært,” segir Atli.

Atli spilaði með FH allan ferilinn ef undanskilin eru tvö tímabil þar sem hann var á láni. Hann byrjaði að æfa í kringum fimm ára aldurinn en það tók hann þó smá tíma að taka af skarið og mæta á æfingu. „Mamma segir að það hafi tekið svona eitt ár að fá mig til að fara á æfingu. Eldri bróðir minn var nú búinn að vera í fótbolta. Ég fór inn í húsinn og fór svo bara út aftur og neitaði að taka þátt. Var að kíkja inn og sjá hvort þetta væri ekki allt í lagi. Svo fór ég bara heim án þess að spila neitt,” segir Atli. 

Í FH var Atli Guðnason hluti af svokallaðri gullkynslóð og vann allt sem hægt var að vinna með yngri flokkum félagsins. Á meðal þeirra leikmanna sem spiluðu með Atla í yngri flokkum má nefna Davíð Þór Viðarsson, sem nú er aðstoðarþjálfari FH, Emil Hallfreðssonn, auk fjölda annarra sem eiga að baki meistaraflokksleiki á Íslandi. Atli segir að það hafi verið óvanalegt hversu margir góðir leikmenn voru hjá FH af þessari kynslóð en keppnisskapið hafi líka komið þeim langt. „Við erum allir kappsamir, hvort sem það er í fótbolta eða öðru. Menn voru alltaf að keppa,” segir Atli.

Lengi vel var Atli þó ekki með bestu mönnum í liðinu og á unglingsárunum var hann nánast hættur í fótbolta. Þegar Atli var 17 ára fór hann til Frakklands í skiptinám og fótboltinn var ekki efstur á blaði þegar hann kom til baka. Eftir árið í Frakklandi mætti Atli í Kaplakrika til að heilsa upp á vini sína í 2. flokki. Þeir voru þá ný lentir eftir að hafa tekið þátt í móti í Svíþjóð og áttu að fara á Akranes að spila næsta dag. Í Kaplakrika hitti Atli þjálfara liðsins, Guðlaug Baldursson, sem spurði hvort Atli vildi ekki koma með á Akranes og spila. Guðlaugur hlustaði ekkert á mótmæli Atla að hann væri í engu formi, sagði honum að koma með, byrja á bekknum og hann gæti þá mögulega komið inn á. Atli lét til leiðast, keyrði með liðinu á Akranes, kom inn á og skoraði sigurmarkið. Eftir það var eiginlega ekki aftur snúið. Leiðin að meistaraflokki var þó ennþá löng. „Það er ekki fyrr en 2004 sem ég fer í meistaraflokk. Þá er ég orðinn 20 ára. Fyrsta æfingin með meistaraflokk er 2004,” segir Atli og tekur fram að nánast allir aðrir leikmenn sem voru með honum í 2. flokki hefðu verið á undan honum í röðinni að spila með meistaraflokk liðsins.

Atli kom við sögu í tveimur leikjum hjá FH sumarið 2004 og skoraði meðal annars þrennu gegn Ægi í bikarnum. Hann var þó aftarlega í röðinni hjá liðinu og fór því á lán til HK seinni hluta tímabilsins. Árið eftir fór Atli aftur á lán og nú til Fjölnis í 1. deildinni. Þar stóð hann sig gríðarlega vel og sá þar að hann ætti alveg heima í deild þeirra bestu. 

Æfði eins og dýr með Heimi Guðjónssyni

Fyrir tímabilið árið 2006 tók Heimir Guðjónsson við sem aðstoðarþjálfari FH. Atli segir að Heimir hafi allt frá upphafi haft mikla trú á sér. „Hann hafði mikla trú á mér allan minn feril, það byrjaði þarna. Hann setti stefnuna að ég ætti að æfa eins og dýr. Þetta voru svakalegar æfingar. Hlaupabrautin með Heimi og lyftingarsalurinn með Eggerti Bogasyni. Þetta var blanda sem var svolítið erfið, maður kom þreyttur heim. En það skilaði sér. Það er þarna sem grunnurinn er lagður af því sem kom 2-3 árum seinna,” segir Atli.

FH tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn árið 2006 og Atli kom talsvert við sögu. Hann spilaði 15 leiki fyrir liðið á mótinu og skoraði þrjú mörk. Flesta leikina byrjaði hann á bekknum en hann var þó ánægður með að fá loksins alvöru tækifæri. Næsta tímabil gekk þó ekki jafn vel og í kjölfarið ætlaði Atli að leita á önnur mið enda samningslaus og ekki áhugasamur að eyða öðru tímabili á varamannbekknum. Eftir tímabilið hættir Ólafur Jóhannesson sem þjálfari og Heimir Guðjónsson tekur við. Heimir talaði strax við Atla og sannfærði hann um að halda áfram í FH. „Ég sé ekki eftir því,” segir Atli.

Dramatík og Evrópuævintýri

Árið 2008 var frábært hjá FH. Liðið varð Íslandsmeistari með dramatískum hætti og mætti einnig stórliði Aston Villa í Evrópukeppninni. Í fyrstu umferð mætti FH liði frá Lúxemborg og voru einmitt að fljúga þaðan þegar að dregið var í næstu umferð og ljóst að Aston Villa yrði næsti andstæðingur. „Þetta var svakalegt lið. Voru í 4. eða 5. sæti í ensku úrvalsdeildinni,” segir Atli. Fyrri leikurinn fór fram á Laugardalsvelli þar sem enska liðið sigraði 4-1, enda stórstjörnur á hverju strái hjá þeim. Seinni leikurinn fór fram á Villa Park í Birmingham fyrir framan tugi þúsunda aðdáenda. „Ég var varamaður þarna og kom inn á. Samt stórkostlegt. Ég held að það hafi verið rúmlega 20 þúsund áhorfendur þannig að það var alveg nóg stemning,” segir Atli.

Lokakafli Íslandsmótsins þetta árið er einnig Atla í fersku minni. Þegar þrjár umferðir voru eftir af mótinu var lið Keflavíkur með átta stiga forystu á toppi deildarinnar. FH átti einn leik inni og FH og Keflavík áttu eftir að mætast. Þrátt fyrir að staðan virtist slæm fyrir leikinn gegn Keflavík neitaði Heimir Guðjónsson að gefast upp og lét leikmenn FH vita að mótið væri ekki búið. „Hann hafði eitthvað til síns máls. Við áttum einn leik inni og innbyrðis leik gegn Keflavík, segir Atli”

Innbyrðis viðureignin gegn Keflavík er einhver dramatískasti leikur í sögu Íslandsmótsins. Jafntefli hefði dugað Keflavík til að tryggja sér titilinn en eftir markalausan fyrri hálfleik náðu FH-ingar 2-0 forystu í seinni hálfleik. Undir lok leiks skoruðu Keflvíkingar tvisvar og þegar níu mínútur voru eftir var staðan 2-2 og bikarinn á leið til Keflavíkur. Atli Viðar Björnsson skoraði svo sigurmarkið í uppbótartíma og titilbaráttan galopin á ný. „Ég man að Davíð Þór Viðarsson var ótrúlegur í þessum leik. Eftir að Keflavík jafnar held ég að hann hafi fengið þrjú færi til að skora, átti tvö skot í slánna. Hann var svo æstur í að vinna þennan leik að hann var orðinn framherji, aftastur í vörn. Bara eins og hann var í 7. flokki, hann var í öllu allstaðar. En hann var ótrúlegur í þessum leik og stærsti einstaki þátturinn að við unnum þennan leik var Davíð,” segir Atli

Í lokaumferðinni mætti FH liði Fylkis í Árbænum en Keflavík átti heimaleik gegn Fram. „Þeir voru ekki búnir að vinna titilinn í rúmlega 30 ár þannig að það var pressa á þeim að vinna,” segir Atli sem lýsir því að þegar að FH komst yfir og leikmenn fögnuðu hafi þeir heyrt tilkynningu í kallkerfi vallarins að Keflavík væri einnig komið yfir í sínum leik. Skömmu síðar kom önnur tilkynning og nú var Fram búið að jafna gegn Keflavík. Þegar þarna var komið við sögu voru liðin jöfn að stigum og með sömu markatölu, en Keflavík þó búið að skora fleiri mörk. 

„Okkur vantaði þá eitt mark til þess að verða meistarar. Guðmundur Sævarsson, bakvörðurinn sjálfur, er mættur inni í teig og neglir honum í slánna og inn. Þegar við erum að fagna því marki kemur að Fram sé búið að skora aftur. Þannig að síðustu 10 mínúturnar eru bara partý inn á vellinum. Það var ótrúleg stemning í lok leiks þegar flautan gall og partýið um kvöldið svakalegt,” segir Atli.

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

 

Á þessum árum einkenndist FH liðið af gríðarlegu keppnisskapi. „Það er allt gert til að vinna. Þeim sem er best lýst þannig er Pétur Viðarsson, hann gerir allt til að vinna. Hann kemur inn þarna, 2007-2008. Hann endurspeglar stemninguna sem var og hann hélt henni svo gangandi. Þeir sem hafa horft á hann spila fótboltaleik, jafnvel spilað með honum á æfingum. Þeir vita það að ef þú vilt hafa rólegheit á æfingu þá er best að Pétur vinni bara. Það er þessi vilji til að leggja allt á sig til að ná sínum markmiðum. Það er mögulega það sem hefur vantað undanfarið hjá FH,” segir Atli. 

Eitt besta tímabil Atla kom svo árið 2009 þar sem FH tryggði sér enn einn titilinn. Í kjölfarið var Atli Guðnason valinn í A-landsliðið í fyrsta sinn en alls spilaði Atli þrjá landsleiki. Sá fyrsti var gegn Íran á útivelli og svo komu leikir gegn Færeyjum og Mexíkó. „Ég er mjög stoltur af þremur landsleikjum, sérstaklega af því að ég fékk að spila í þeim öllum,” 

„Voru aldrei að fara að kaupa mig"

Það var einnig eftir tímabilið 2009 sem Atli fór tvisvar sinnum á reynslu til Noregs. Bág fjárhagsstaða flestra liða kom þó í veg fyrir að hann gerðist atvinnumaður erlendis. „Þarna er fjármálahrunið. Þegar ég fer út er ekki til peningur neins staðar. Mér gekk vel hjá Start, það var bara beint eftir tímabilið hjá okkur. Mér gekk vel þar og hefði alveg getað fengið samning þar sennilega, en ég var með tvö ár af samning í viðbót þannig að þeir voru aldrei að fara að kaupa mig, ég vissi það alveg,” segir Atli.

Eftir reynsluna hjá Start kom svo óvænt kauptilboð frá Tromsö og Atli taldi sig vera að fara út til að skrifa undir samning. „Nema hvað að þegar ég mæti eru fjórir aðrir á reynslu. Ég hélt að ég sé að fara að skrifa undir samning og skoða aðstæður. En þá er þetta bara reynsla, fjórar æfingar. Ég var bara heppinn að ég tók skóna með. Þetta var mjög skrýtið. Komið tilboð frá Tromsö til FH sem FH var búið að samþykkja. Það var eitthvað klúður umboðsmanna og svona sem ég frétti af síðar,” segir Atli.

Evrópuferðirnar hápunkturinn

Miklar breytingar urðu á FH liðinu á þessum tíma og sterkir póstar hurfu á braut. Að sögn Atla náðist ekki að fá nógu sterka leikmenn inn í stað þeirra sem hættu. FH endaði því í öðru sæti deildarinnar næstu tvö tímabil. Næsti Íslandsmeistaratitill kom árið 2012 og átti Atli Guðnason þá virkilega gott tímabil þar sem hann endaði mótið með flest mörk og flestar stoðsendingar. 

Á þessu tímabili komst FH einnig nálægt því að slá út eitt besta lið Svíþjóðar í Evrópukeppninni. FH mætti þá AIK og gerði 1-1 jafntefli í fyrri leiknum sem fór fram í Svíþjóð. Stuðningsmenn AIK voru langt frá því að vera sáttir með úrslitin enda töluðu sænskir fjölmiðlar mikið um að FH væri aðeins áhugamannalið í aðdraganda leiksins og nánast gert grín að kennurum og tónlistarmönnunum sem voru í liði FH. „Þetta var svakalegt. Þetta er á gamla Rasunda vellinum í Stokkhólmi. Framkvæmdastjórinn þurfti að mæta eftir leik og róa stuðningsmenn niður. Þeir voru brjálaðir og ætluðu inn á völlinn. Við vorum að skokka okkur niður og okkur var sagt að fara inn í klefa því það væri verið að fara að ráðast inn á völlinn,” segir Atli. 

Litlu munaði að FH næði að slá út sænska liðið í seinni leiknum en markalaust jafntefli hefði dugað FH til að komast áfram. AIK skoraði hins vegar eina mark leiksins og fór því áfram. AIK fór alla leið í riðlakeppnina þetta ár og mætti þar stórliðum Napoli og PSV.

Evrópuleikirnir eru hápunkturinn á ferlinum að mati Atla. Nefnir hann þar sérstaklega viðureignirnar við Ekranas, þar sem FH fór áfram og leikina um sæti í riðlakeppni Evrópukeppninnar. „Eins og Austria Vín hérna heima. Við gerðum 0-0 jafntefli og þeir einum færri. Mig minnir að Brynjar Ásgeir hafi ekki vitað að þeir voru einum færri, hann fiskaði rauða spjaldið en fattaði það ekki. Það var mesta svekkelsið þar. Það var í fyrsta skipti sem við áttum möguleika á að komast í riðlakeppni. Vorum alveg grátlega nálægt því,” segir Atli. Hann nefnir einnig leikinn gegn Braga í Portúgal þar sem Böðvar Böðvarsson skoraði tvö mörk fyrir FH. „Þá þurfti maður að klípa sig og velta því fyrir sér hvort þetta væri djók,” segir Atli. Portúgalarnir jöfnuðu leikinn þegar að um 10 mínútur voru eftir og skoruðu svo sigurmarkið í uppbótartíma. 

„Það sem stendur upp úr öllum Evrópukeppnisævintýrunum eru ferðirnar. Í langflestum tilvikum erum við lakara liðið. Það er ótrúlega skemmtilegt að vera í bardaga og vera minna liðið, tala nú ekki um þegar gengur vel. Það er ótrúleg stemning sem myndast í svona hópum. Þar sem bæði keppnisskapið er mikið og mikið undir og gengur vel. Þá er þetta ótrúlega gaman.

Áfall að tapa gegn Stjörnunni

Eitt skemmtilegasta Íslandsmót seinni ára er eflaust tímabilið 2014 þar sem FH og Stjarnan fóru taplaus í gegnum mótið fram að síðasta leik, en þar mættust liðin innbyrðis. Atli segir það hafa verið skrýtið að fylgjast með velgegni Stjörnunnar á tímabilinu. „Þeir unnu alla leiki, þeir bara töpuðu ekki, skipti engu hvort það væri deild, bikar eða Evrópukeppni. Það var mjög skrítið að fylgjast með því. Þeir kepptu við allskonar lið og þeir unnu alltaf, þangað til að koma að Inter sem var kannski of stór biti fyrir þá,” segir Atli.

Liðin mættust í hreinum úrslitaleik fyrir framan 6.500 áhorfendur í Kaplakrika 4. október. „Það var brjálað veður í upphitun og fyrri hálfleik. Enda var fyrri hálfleikur dauður eiginlega. Þeir skora þarna í fyrri hálfleik, 0-1. Við förum inn í hálfleik og ætlum að trekkja okkur í gang,” segir Atli.

Í seinni hálfleik missti Stjarnan leikmann af velli með rautt spjald og FH tók nánast öll völd á vellinum í kjölfarið og náðu að jafna. Miðað við þau úrslit hefði FH orðið Íslandsmeistari. „Ég held að innst inni héldum við að þetta væri komið,” segir Atli. Í uppbótartíma leiksins var dæmt víti sem Stjarnan skoraði úr og tryggði sér sigurinn og jafnframt Íslandsmeistaratitilinn. Atli segir að stemningin í klefanum eftir leik hafi verið sérstök. „Menn voru brjálæðir. Einhverjir grátandi og allskonar. Fyrsta sem ég hugsaði þegar ég kom heim var hvað ég var feginn að vera í fæðingarorlofi. Ég er að vinna í Fjölbraut í Garðabæ, var mjög feginn því að þurfa ekki að fara í vinnuna á mánudegi,” segir Atli.

Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Kolodziejski - RÚV

 

Á undirbúningstímabilinu fyrir næsta tímabil var strax ákveðið að gleyma tapinu gegn Stjörnunni og stefnan var sett á að bæta öðrum Íslandsmeistaratitli við safnið. Atli segir að þetta hafi að mörgu leyti verið rétt aðferð, enda vann FH mótið næstu tvö ár. Tapið gegn Stjörnunni árið 2014 sat þó lengi í leikmönnum. „Ég held að það hafi komið seinna sjokkið, það var ekki unnið úr neinu. Þetta er auðvitað bara áfall að fá þetta víti á sig. Þetta var mjög erfitt fyrir alla, hvort sem það eru leikmenn eða aðrir. Ég held að við sem leikmenn urðum þreyttari fyrr en sem endar svo 2017 þegar það er komin rosalega þreyta í FH batteríið,” segir Atli.

Þreytan sem Atli nefnir virðist hafa lagt FH liðið árið 2017. Liðið endaði í þriðja sæti í deildinni það ár og í kjölfarið ákvað stjórn knattspyrnudeildar að reka Heimi Guðjónsson og Ólafur Kristjánsson var ráðinn inn í hans stað. Atli segir að eftir tímabilið hafi í raun aðeins tveir möguleikar verið í stöðunni, að láta Heimi halda áfram og búa til nýtt lið, eða halda svipuðum hóp og fá nýjan þjálfara. „Mér fannst vera komin þreyta í FH. Ég held að stjórnin hafi fundið það líka. Það var kannski erfiðara að henda öllum leikmönnunum sem voru búnir að vera lengi. Fyrir mig var bara tvennt í stöðinni, til að stokka upp í klúbbnum þyrftu eldri leikmenn að fara og Heimir fengi tækifæri til að búa til nýtt lið eða Heimir færi.,” segir Atli.

Sjálfur var Atli samningslaus og hefði að öllum líkindum hætt eða farið annað ef Heimir hefði haldið áfram með liðið. „Ég hefði alveg skilið ef þeir hefðu sagst ætla að breyta og Heimir myndi fá að búa til nýtt lið,” segir Atli.

Það gekk fátt upp hjá FH undir stjórn Ólafs Kristjánssonar og Atli er á því að hann hafi farið í of miklar breytingar á stuttum tíma. Sjálfur vildi Atli spila mun meira en hann gerði undir stjórn Ólafs. „Ég held að hann hafi hugsað mig sem stoðþjónustu,” segir Atli. 

Fékk aldrei að spila með Castillion

Einn af þeim leikmönnum sem fengnir voru til liðsins var Geoffrey Castillion. Hann hafði verið frábær hjá Víkingi Reykjavík árið áður þar sem hann skoraði 11 mörk í 16 leikjum. Það voru því miklar væntingar til hans hjá FH. Þar gekk hins vegar ekkert upp og eftir aðeins 1 mark í 10 leikjum var Castillion lánaður til Fylkis þar sem hann skoraði sex mörk í næstu átta leikjum. Atli vakti athygli Ólafs á því að hann fékk aldrei að spila með Castillion. 

„Það sem er áhugavert við þetta er að þegar Castillion er inn á þá er ég aldrei inn á. Ég held að ég hafi ekki spilað eina mínútu með honum. Hann skoraði eiginlega engin mörk, ég held að honum hafi vantað einhvern til að mata sig. Alltaf þegar hann var tekinn út af kom ég inn á og svo öfugt. Ég nefndi þetta við þjálfarann og hann kom af fjöllum og var ekkert búinn að átta sig á því að þarna gæti verið eitthvað samhengi, en þá var Castillion eiginlega bara búinn,” segir Atli.

Eftir tímabilið 2019 var Atli nálægt því að leggja skóna á hilluna. Hann ákvað samt að taka slaginn eitt tímabil í viðbót og var í Crossfit allan veturinn til að vera í eins góðu formi og hægt var. „Þá kemur COVID og allt sem því fylgir. Það var mjög erfitt fyrir 36 ára mann að halda dampi eftir átta vikna pásu,” segir Atli.

Á miðju tímabili urðu þjálfarabreytingar hjá FH og Eiður Smári Guðjohnsen tók við liðinu ásamt Loga Ólafssyni. „Eiður er stærsta stjarnan og þegar það kemur svoleiðis maður inn þá stíga menn upp. Eftir að Eiður Smári og Logi koma inn er Lennon ótrúlegur. Hann hefði slegið þetta markamet ef mótið hefði verið klárað. Enginn spurning,” segir Atli.

Hann segir verkaskiptingu þeirra hafa verið nokkuð jafna. „Eiður sá um æfingar. Sá um að halda mönnum á tánum á æfingum. Á fundum töluðu þeir svo báðir. Logi er náttúrulega léttur, kemur með létta stemningu allstaðar þar sem hann er. Eiður kemur með hinn pólinn, sterkan karakter sem heldur mönnum á tánum. Með fáránlega visku. Maður var oft að velta fyrir sér: „Hvaðan ætli þetta komi? Ætli þetta sé Mourinho eða Guardiola?,” segir Atli.

Atli Guðnason gerði upp ferilinn í Sportrásinni á Rás 2. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér að ofan.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Atli Guðnason hættur í fótbolta