Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hættustigi ekki aflýst á Seyðisfirði í bili

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir - RÚV
Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra ætlar ekki að aflétta hættustigi á Seyðisfirði á meðan hreinsunarstarf stendur yfir eftir stóru skriðuna sem féll þar 18. desember. Enn ríkir óvissa um íbúabyggð á tilteknum svæðum í bænum í framtíðinni, en búið er að kalla eftir að hættumati þar verði flýtt. Á meðan kalt er í veðri og ekki rigning telur Veðurstofan þó ekki sé yfirvofandi hætta á skriðum.

Fram kemur í tilkynningu frá almannavarnarnefnd ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Austurlandi að síðustu vikur hafi verið unnið að hreinsunarstarfi á Seyðisfirði, meðal annars á áhrifasvæði stóru skriðunnar er féll við Múla. Þar eru hús við Hafnargötu númer 10, 11, 12, 14, 15, 16b og 18c. Svæðið telst vinnusvæði þar sem óviðkomandi er bannaður aðgangur. Stórvirkar vélar eru notaðar við hreinsunarstarf og gerð varnargarðs ofan við fyrrnefnd hús.

„Þá hefur Múlaþing, ásamt fulltrúa Ofanflóðasjóðs, lagt til að hættumati verði flýtt á svæði utan við stóru skriðuna vegna húsa sem eru sitt hvoru megin við Stöðvarlæk. Óvissa ríkir varðandi íbúðabyggð þar til framtíðar.”

Veðurstofan, almannavarnir og lögreglan hafa í sameiningu ákveðið að aflétta ekki hættustigi á Seyðisfirði á meðan hreinsunarstarf stendur yfir, varnargarður sé í vinnslu og frummatsskýrslu ekki lokið fyrir svæðið utan við skriðu. 

Á meðan kalt er í veðri og ekki rigning, telur Veðurstofan að ekki sé yfirvofandi skriðuhætta.

Almannavarnir búast við að svæðið verði rýmt til öryggis af og til næstu mánuði, en það fer eftir veðri. Drög að svæðisskiptri rýmingaráætlun hafa verið unnin til þess að bregðast við slíkum aðstæðum. Samráð verður haft við íbúa Seyðisfjarðar og verður áætlunin kynnt þegar hún verður tilbúin.